Minnst þrír voru handteknir í lögregluaðgerð í Flúðaseli í Breiðholti skömmu eftir hádegi í dag. Sérsveit ríkislögreglustjóra var send á vettvang en þetta er annað skiptið í mánuðinum sem menn eru handteknir í íbúðinni.
Rúv greinir frá og hefur það eftir Ævari Pálma Pálmasyni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að lögregla hafi verið að fylgja eftir máli sem hún hefur til rannsóknar.
Þá hafi lögregla metið það svo að aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra væri nauðsynleg.
Aðrir þrír voru handteknir þar fyrr í mánuðinum og vakti það athygli að maður hafi þar verið handtekinn og fluttur út úr húsi á nærfötunum.
Handtökurnar tengdust rannsókn á ráni sem átti sér stað snemma á höfuðborgarsvæðinu þann morgun. Þeir þrír höfðu allir komið við sögu lögreglu áður.