„Þess vegna springur fundarherbergið“

Ösp Vilberg Baldursdóttir, formaður Máleflis, segir að umframeftirspurn fræðsluerindis bendi …
Ösp Vilberg Baldursdóttir, formaður Máleflis, segir að umframeftirspurn fræðsluerindis bendi til þess að þörfin sé sannarlega til staðar. Samsett mynd/aðsend/Facebook/Málefli

Málefli, hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun, stóð fyrir fræðsluerindi í gegnum fjarfundabúnað á þriðjudaginn.

Metaðsókn var á erindið og komust færri að en vildu. 500 sæti voru í boði og voru þau öll setin þegar um þrjár mínútur voru liðnar af erindinu.

Ösp Vilberg Baldursdóttir talmeinafræðingur er formaður Máleflis. Segir hún í samtali við mbl.is að þessi umframeftirspurn sé áhugaverð og bendi til þess að sú þörf sem stjórn Máleflis hefur fundið hjá foreldrum, fagfólki og öðru áhugafólki á fræðslu um tal- og/eða málþroskaröskun á Íslandi sé sannarlega til staðar.

Aðgengi að þjónustu skortir

Segir Ösp að mikill skortur hafi verið á aðgengi að þjónustu í þessum mikilvæga málaflokki.

„Talmeinafræðingar eru af skornum skammti og alls staðar er gífurlega löng bið eftir þjónustu þeirra,“ segir hún en þeir starfa bæði sjálfstætt og svo innan sveitarfélaganna og hjá ríkinu.

„Við erum að fá til okkar foreldra sem hafa jafnvel fengið greiningu fyrir sín börn þar sem kemur í ljós að þau eru mjög illa stödd mállega, en þurfa að bíða í tvö til þrjú ár eftir að fá þjálfun hjá talmeinafræðingi.“

Börn ekki að fá inngrip sem þau ættu að eiga rétt á

Ösp segir að í millitíðinni séu foreldrar orðnir einhvers konar málastjórar barna sinna sem vita að á þessum viðkvæmu árum, þar sem börnin eru að taka mestan þroska út, eru þau ekki að fá það inngrip sem þau ættu að eiga rétt á.

„Börn hafa oft legið á milli tveggja kerfa. Ef börn eru mjög illa stödd ættu þau að fá þjónustu á vegum Sjúkratrygginga en ef þau eru ekki það illa stödd fá þau þjónustu hjá sveitarfélagi. Kerfið er mjög óþjált og þetta snýst í raun um það hver borgar fyrir meðferðina.“

Segir hún að í millitíðinni fái foreldrar skýrslu sem inniheldur oft aðeins almennar upplýsingar um málörvun. Einu upplýsingarnar sem foreldrar fái sé staðan á barninu á þeim tímapunkti og að það þurfi að bíða í þessi tvö til þrjú ár.

Foreldrar leitandi og spyrjandi

„Á meðan eru foreldrar auðvitað leitandi og spyrjandi svo að á þremur mínútum fyllist fyrirlestur í hagsmunabaráttu á netinu. Ég hef ekki heyrt um þetta áður. Aldrei! Aðgengi að fræðslu og upplýsingum á meðan beðið er efir þjónustu er ekki til staðar. Þess vegna springur fundaherbergið.“

Álfhildur Þorsteinsdóttir talmeinafræðingur hélt erindið og fjallaði um einkenni og afleiðingar málþroskaröskunar.

Ákveðið hefur verið að Álfhildur muni endurtaka erindi sitt á þriðjudagskvöld, 26. september klukkan 20. Málefli kostar erindið rétt eins og erindið sem fylltist á í vikunni.

Málefli er aðildarfélag Öryrkjabandalags Íslands sem hefur verið góður bakhjarl að sögn Aspar.

Segir hún að Málefli reiði sig einnig á félagsgjöld og eins hafi einhverjir hlaupið fyrir félagið á undanförnum árum. Segir hún að hið opinbera komi ekki með beinum hætti að fjármögnun félagsins svo hún viti til en Ösp tók við formennsku í félaginu fyrr á árinu.

„Nú er starfshópur að gera úttekt á talmeinaþjónustu við börn og unglinga. Við fengum fyrirspurn um það hvort það væri einhver notandi að þjónustunni sem væri tilbúinn að sitja í þeirri nefnd. Það er um það bil það mesta sem ég þekki inn á samstarf við hið opinbera.“

Þessi úrræði voru til

Ösp starfar á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og segir hún að áður hafi stöðin boðið upp á fræðslu til foreldra sem eiga börn sem komu illa út úr 18 mánaða skoðun.

„Við veittum bæði fræðslu og gerðum málþroskamat í kjölfarið. Það verkefni var tímabundið lagt niður vegna manneklu. Áður en þau byrja í leikskóla þá geta þau ekki leitað neitt í þjónustu talmeinafræðings. Þessi úrræði voru til og þessi fræðsla var til en því er ekki að heilsa lengur.“

Segir hún að í fullkomnum heimi ættu foreldrar, kennarar og sérkennarar á öllum skólastigum, leik-, grunn- og framhaldsskóla, að geta leitað sér upplýsinga og setið fræðslu um málþroskaröskun því biðin eftir talþjálfun hjá talmeinafræðingi sé of löng.

„Í millitíðinni hafa þessir einstaklingar engin verkfæri og engan vettvang til að kynna sér málin betur. Ég hefði viljað sjá reglulega fyrirlestra fyrir foreldra í þessari stöðu til dæmis inni á þjónustumiðstöðvunum eða annars staðar.

Það skortir verkfæri fyrir foreldra, börn og þetta fagfólk í þessu millibilsástandi. Það þarf fleiri talmeinafræðinga og til þess að það geti gerst þá þarf að lyfta grettistaki innan akademíunnar þar sem talmeinafræði er langt nám sem eingöngu er kennt á meistarastigi hér á landi. Vonandi verður það fært yfir á grunnstig líka.

Það skortir fjármagn og aðgengi að námi.“

mbl.is
Loka