Fellur undir barnaníðsákvæði hegningarlaga

María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá ríkislögreglustjóra og doktor …
María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá ríkislögreglustjóra og doktor í lögfræði. Samsett mynd

María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá ríkislögreglustjóra, efast ekki um að ólögleg dreifing og framleiðsla á nektarmynd­um, sem hafa verið gerðar með hjálp gervi­greind­ar, muni eiga sér stað á Íslandi.

mbl.is fjallaði í gær um óhugnanlegt mál á Spáni þar sem nektarmyndir af stelpum undir lögaldri voru í dreifingu. Myndirnar voru þó upphaflega saklausar myndir af þeim á samfélagsmiðlum sem hafði verið breytt með hjálp gervigreindar sem „afklæddi“ þær og tölvuteiknaði þá hluta líkamans sem voru huldir undir fatnaði.

Framleiðsla og dreifing ólögleg

Á Spáni velti fólk því fyrir sér hvort að dreifing eða framleiðsla á myndunum væri ólögleg, þar sem ekki er um „raunverulega“ mynd að ræða. María segir í samtali við mbl.is þó engan vafa vera á því að á Íslandi nái lagaramminn utan um svona myndir.

„Það þarf auðvitað að meta í hvert skipti, en ef það er verið að búa til mynd sem á að vera af einhverjum öðrum, og það er augljóst að myndin eigi að vera af þeirri manneskju, þá skiptir ekki máli hvort að þú búir myndina til með „photoshop“ eða gervigreind. Það er bæði refsivert að búa hana til og að dreifa henni.“

Bendir hún á að árið 2021 hafi verið samþykkt lög um kynferðislega friðhelgi þar sem þetta kemur fram, feitletrað hér á eftir:

Hver sem útbýr, aflar sér eða öðrum, dreifir eða birtir myndefni, texta eða sambærilegt efni, þ.m.t. falsað efni, af nekt eða kynferðislegri háttsemi annars manns án hans samþykkis skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“

Refsingin þyngist ef um barn er að ræða

Ef myndin sem er framleidd, eða dreifð, er af einstaklingi sem er undir lögaldri verður refsingin enn þyngri.

„Ákvæðið um kynferðislega friðhelgi verndar bæði ungmenni og fullorðna. En það myndi alltaf hafa áhrif og augljóst að það myndi falla undir barnaníðsákvæði hegningarlaga,“ segir María og bætir við:

„Það sem skiptir máli fyrir íslenskt samfélag í þessari frétt um Spán er að gerendurnir eru undir 15 ára. Við refsum ekki börnum undir 15 ára á Íslandi þegar þau fremja brot. Það væri hins vegar alltaf barnaverndarmál og myndi setja af stað samþætta þjónustu sem kemur með nýju farsældarlögunum.“

Efast ekki um að svona mál muni gerast á Íslandi

Spurð hvort að Íslendingar þurfi að óttast þessa nýju ógn segir hún það því miður vera svo.

„Íslendingar eru svo ótrúlega tæknivæddir og nýjungagjarnir í notkun á tækni að ég efast ekki í eina sekúndu um að við munum sjá svona brot hér á landi eins og annars staðar í heiminum.“

María segir að hingað til hafi hafi svona mál ekki komið upp hér á landi en að það sé aðeins tímaspursmál. Gervigreind sé nú þegar búin að koma við sögu í fjársvikamálum.

„Það eru margir glæpamenn sem eru með frumkvöðlahugsun.

Úrræði til staðar fyrir fólk

Að lokum hvetur María fólk til að skoða vefsíðu 112 um netöryggi þar sem bæði upplýsingar og stuðning er  finna fyrir fórnarlömb, aðstandendur eða fólk og foreldra sem vilja tryggja netöryggi.

„Ef einhver hefur áhyggjur af því að það sé mögulega eitthvað svona í dreifingu eða vill bara öruggari netnotkun þá eru til úrræði til að takmarka dreifingu og þarna er hægt að leita allra upplýsinga.“

Hægt er að nálgast vefsíðu 112 með því að smella hér.

mbl.is
Loka