Háhyrningnum bjargað í nótt

Háhyrningnum var bjargað í nótt.
Háhyrningnum var bjargað í nótt. Samsett mynd/Arianne Gaehwiller/Kristján Ingi

Háhyrningi, sem lá strandaður við Gilsfjörð í gær, var bjargað á flóði um miðnætti. Björgunarsveitinni Ósk barst aðstoð frá björgunarsveitum frá Reykjavík með mannskap, ljós og dróna.

Dýrið var losað af strandstað um klukkan ellefu í gærkvöldi og fylgt á meira dýpi þar sem bátur fylgdi því út í dýpsta álinn.

Háhyrningurinn hvarf úr augsýn rétt fyrir klukkan eitt í nótt, að sögn Þóru Jóhönnu Jónasdóttur, dýralæknis hjá Matvælastofnun.

Í góðu standi miðað við aðstæður

„Hann var í ótrúlega góðu standi miðað við að hafa þurft að vera strandaður tvær fjörur. Ákveðið var að reyna á flóðin í nótt og að tefla til öllu sem hægt var til þess að ná honum út,“ segir Þóra í samtali við mbl.is.

Um var að ræða ungt og hraust karldýr og virtist líkamlegt ástand þess vera gott.

„Við fylgjumst meðal annars með önduninni af því að hvalir eru svo þung dýr að lungun geta fallið saman ef þeir liggja svona lengi undir eigin þyngd.“

Frá björgunaraðgerðum í nótt.
Frá björgunaraðgerðum í nótt. Ljósmynd/Arianne Gaehwiller

Andaði örar þegar fólk nálgaðist

Fjöldi fólks safnaðist við fjöruna í gær og gengu sumir að dýrinu, að sögn Þóru.

„Það stressaði dýrið mjög mikið og það fór að anda mun örar. En um leið og fólkinu var vísað frá þá hægðist aftur á andardrættinum. Það er mjög mikilvægt í svona tilfellum að fólk sé ekki að hrannast að dýrinu af því að allt stress minnkar lífslíkur þess.“

Höfðuð þið áhyggjur af því að háhyrningurinn hefði þetta ekki af?

„Þegar dýrið næst ekki út á fyrsta flóði, sem var besta flóðið þennan sólarhringinn, þá minnka alltaf líkur á að björgun takist. Sannarlega höfðum við áhyggjur en af því að líkamlegt ástand dýrsins virtist þrátt fyrir það vera nokkuð gott var ákveðið að halda áfram björgun. En auðvitað vorum við með tilbúin viðbrögð ef það skyldi draga illa að dýrinu.“

Viðbragðsteymið Hvalir í neyð þakkar öllum sem komu dýrinu til hjálpar með einum eða öðrum hætti.

mbl.is