Íslenski hamarinn í New York fór í sundur

Þórdís Kolbrún ávarpaði Allsherjarþingið í dag.
Þórdís Kolbrún ávarpaði Allsherjarþingið í dag. AFP

Íslenskur fundarhamar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, sem var sendur þinginu í New York árið 2005, fór í sundur við setningu þingsins.

Frá þessu greinir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, í pistli í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag, en þingið var sett á þriðjudaginn.

„Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var sett í vikunni í 78. sinn og voru augu heimsins venju samkvæmt á New York, borginni sem valin var til þess að hýsa þessa mikilvægustu alþjóðastofnun heims,“ skrifar Þórdís, sem ávarpaði Allsherjarþingið í dag.

Frægt atvik árið 1960

„Ráðherravika allsherjarþingsins hefur í gegnum tíðina verið vettvangur margra sögulegra viðburða og dramatískra tilþrifa. Meðal þeirra frægustu var árið 1960 þegar Níkíta Krútsjev aðalritara sovéska kommúnistaflokksins varð svo heitt í hamsi að hann reif sig úr skónum og barði honum í púltið. Forseti þingsins brást við með því að negla fundarhamrinum ákaft í borðið með þeim afleiðingum að hann hrökk í sundur.“

Bendir hún á að fundarhamarinn hafi verið íslensk smíð, nefnd Ásmundarnautur og hönnuð af Ásmundi Sveinssyni.

Var hamarinn gefinn Sameinuðu þjóðunum þegar höfuðstöðvar þeirra voru teknar í notkun árið 1952.

„Nýr hamar var smíðaður en hann hvarf með dularfullum hætti. Enn var sendur nýr hamar árið 2005 en við setningu þingsins sl. þriðjudag gerðist það aftur að forsetinn reyndist helst til harðhentur og hamarinn góði fór í sundur. Verður nýr smíðaður og sendur í hans stað við fyrsta tækifæri.“

Tákn um forsetaskipti

Hefð er fyr­ir því að for­seti þings­ins hverju sinni taki við hamr­in­um sem tákni um að hann hafi tekið við stjórn þings­ins.

Sig­ríður Kristjáns­dótt­ir, Sigga á Grund í Vill­inga­holts­hreppi, skar út síðasta hamarinn. Hún gerði einnig eftirlíkingu sem fengin var ráðherranefnd Evrópuráðsins á leiðtogafundinum hér á landi fyrr á árinu. 

mbl.is
Loka