Vígalegur rostungur gladdi íbúa á Raufarhöfn um stundarbil í dag en er nýfarinn aftur í sjóinn.
Mbl.is náði tali af Ingibjörgu Hönnu Sigurðardóttur en hún heilsaði upp á rostunginn áðan og segir hún dýrið hafa verið vel vaxið.
„Hann er mjög stór, hann er eiginlega eins og kýr,“ segir hún og hlær, spurð um stærð dýrsins.
Ekki er vitað hvenær rostunginn bar að garði en Ingibjörg kveðst hafa hitt sjómann í dag sem fór á sjó klukkan sex í morgun og þá hafi rostungurinn verið mættur í fjöruna. Þar af leiðandi megi leiða líkur að því að hann hafi komið um nóttina.
Rostungurinn er farinn aftur í sjóinn en margir höfðu lagt leið sína til að skoða hann.
„Hann fékk eflaust allt of mikla athygli, fólk var nálægt honum og hann orðinn úrillur,“ segir Ingibjörg og bætir við:
„Hann urraði svona á okkur og hvæsti.“