Talin hafa farið óvarlega með PIN-númerið

Úrskurðarnefndin hafnaði kröfu konunnar.
Úrskurðarnefndin hafnaði kröfu konunnar. mbl.is/​Hari

Vinnuferð konu til London sumarið 2022 átti eftir að draga dilk á eftir sér. Hún hafði meðferðis tvö greiðslukort, debetkort sem hún notaði aðallega og kreditkort sem notað var einu sinni. Það átti eftir að hafa afleiðingar en aðeins í það eina skipti sló viðkomandi inn PIN-númer kortsins.

Konan uppgötvaði síðar um daginn að kortaveskið var horfið úr tösku hennar og gerði kortafyrirtækinu viðvart tæplega einum og hálfum tíma síðar. Þegar kortinu var lokað höfðu fimm færslur verið framkvæmdar með kreditkortinu sem námu alls 139.156 kr.

Fleiri úttektir voru reyndar en sumum var hafnað vegna þess að þær voru yfir fjárhæðarmörkum. Þegar heim var komið úr vinnuferðinni leitaði konan til lögreglu og Neytendasamtökin tóku málið til umfjöllunar en kortafyrirtækið hafnaði kröfu um endurgreiðslu.

Vítavert gáleysi

Málinu var skotið til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Viðskiptavinur kortafyrirtækisins krafðist þess að greiðslurnar fimm yrðu endurgreiddar. Kortafyrirtækið taldi hins vegar vítavert gáleysi hjá korthafanum hafa leitt til þess að sá sem kortinu stal komst einnig yfir PIN-númer þess.

Úrskurðarnefndin hafnaði kröfu konunnar og segir að til þess beri að líta að hinn óprúttni aðili, sem stal kortinu, hafi slegið inn PIN-númer að kortinu tíu sinnum og rétt númer í hvert skipti. Erfitt sé að draga aðra ályktun en þá að sóknaraðili hafi farið óvarlega með PIN-númerið með þeim afleiðingum að það hafi komist í hendur hins óprúttna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: