„Er-a svá gott sem gott kveða öl alda sonum,“ segir í Hávamálum, „því að færra veit er fleira drekkur síns til geðs gumi.“
Það má til sanns vegar færa að hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta, en glösin mega þó ekki verða fjögur eða fimm án þess að veigarnar geti farið að hafa slæm áhrif á bæði neytandann og hugsanlega umhverfið líka, að mati sérfræðinga.
Í nýjum lýðheilsuvísum kemur fram að árið 2022 stunduðu tæplega 24% allra Íslendinga áhættudrykkju og er það nokkur aukning á milli ára.
Þegar skoðaður er kynjamunur á drykkjunni nær þetta neyslumynstur til 21% kvenna en 27% karla, sem þýðir að samtals eru þá um 58 þúsund Íslendingar að drekka í óhófi, sem getur skaðað heilsu þeirra, félagslegt umhverfi og efnahag þjóðarinnar.
Á alheimsvísu er talið að þrjár milljónir manna deyi árlega vegna áfengisdrykkju og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er áhættudrykkja leiðandi áhættuþáttur fötlunar og dauðsfalla.
Áhættudrykkja er skilgreind út frá tíðni drykkju, fjölda drykkja og hversu oft neytandinn verður mikið ölvaður.
Ítarlegri umfjöllun má lesa í Morgunblaðinu sem kom út á föstudag.