Aldrei fleiri Íslendingar keypt miða

Íslenskir stuðningsmenn verða fjölmargir á leikjum karlalandsliðsins á EM í …
Íslenskir stuðningsmenn verða fjölmargir á leikjum karlalandsliðsins á EM í München. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gríðarlegur áhugi er á meðal stuðningsmanna íslenska karlalandsliðsins í handbolta fyrir Evrópumótinu sem fram fer í Þýskalandi í janúar á næsta ári.

Ljóst er að þúsundir Íslendinga verða á áhorfendapöllunum í München en þar verður riðill Íslendinga spilaður. Íslandi er í riðli með Serbíu, Svartfjallalandi og Ungverjalandi. Komist Íslendingar áfram í milliriðill spila þeir í Köln.

Uppselt í íslenska hólfið

„Miðasalan er alfarið í höndum mótshaldara svo við höfum ekki nákvæma tölu. Þeir útveguðu Íslendingum ákveðið hólf í sömu stærð og hin liðin í riðlinum okkar og það er löngu uppselt í það hólf. Það eru nokkuð hundruð miðar lausir í höllinni en þegar keppnin er haldin í landi þar sem handboltinn er vinsæll þá mæta Þjóðverjar þótt Þýskaland sé ekki að keppa,“ segir Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri HSÍ, við mbl.is.

Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri HSÍ.
Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri HSÍ. Mynd/HSÍ

„Mótshaldarar hafa gefið það út að þeir hafi selt nærri fjögur þúsund miða til Íslendinga. Það er því ljóst að það verða fleiri íslenskir stuðningsmenn á EM í Þýskalandi en nokkru sinni áður á stórmóti. Þeir voru um 2.500 á HM í Svíþjóð í janúar. Áhuginn fyrir EM er gríðarlegur en vandamálið er að Þjóðverjar hafa keypt mikið af miðum sem getur gert það að verkum að færri Íslendingar geti komið á leikina,“ segir Kjartan.

„Vonandi fáum við sem flesta með stelpunum“

En það er ekki bara karlalandsliðið sem er á leið á stórmót. Kvennalandsliðið tekur þátt á heimsmeistaramótinu sem sem hefst í lok nóvember í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Ísland leikur í riðli Frakklandi, Slóveníu og Angóla og verður riðillinn spilaður í Stavanger í Noregi. 

„Við endum árið á handboltaveislu og byrjum árið á handboltaveislu. Við erum nýbyrjuð að selja miða á leiki kvennalandsliðsins og vonandi fáum við sem flesta með stelpunum til Stavanger. Munurinn er hins vegar sá að það er beint flug til München allt árið en ekki til Stavanger. Icelandair er að gefa þeim sem kaupa flug til Kaupmannahafnar eða Ósló svo áfram til Stavanger miða á leikina. Svo býr töluvert af Íslendingum í Stavanger og í Noregi og við erum að vonast til þess að fá góðan stuðning.

Sérsveitin, stuðningsmannasveit landsliðanna, ætlar að mæta bæði til Þýskalands og Noregs og við verðum klár með treyjur og það sem til þarf fyrir íslensku stuðningsmennina sem ætla að fylgja liðunum út. Það verður sala á þeim á staðnum og eins fyrir mótin,“ segir Kjartan.

mbl.is
Loka