Þriggja ára blendingurinn Spori og eigandi hans, Stefanie Scheidgen, hafa tekið þátt í hundavinaverkefni Rauða Krossins í eitt ár.
Við fengum að fylgja þeim í heimsókn til Ásdísar Maríu Helgudóttir, en þau hafa myndað einstaka tengingu síðastliðið ár.
Hundavinaverkefnið er vinaverkefni á vegum Rauða Krossins sem felur í sér að aðstoða áhugasama við að styrkja félagslega þátttöku þeirra. Verkefnið hófst árið 2006 og er unnið að norskri fyrirmynd.
Hundavinir hittast einu sinni í viku þar sem hundurinn er aðalatriðið en rannsóknir hafa sýnt að dýr geti haft mjög góð áhrif á heilsu manna. Sjálfboðaliðinn fer ýmist heim til gestgjafa og fara þeir þá jafnvel í göngu saman eða inn á viðeigandi stofnun og hitta þá jafnvel fleiri en eina manneskju í svokallaðri hópheimsókn.
Verkefnið hefur vakið gríðarlega lukku meðal þátttakenda og er biðlisti meðal skjólstæðinga Rauða Krossins, sem vilja eignast hundavin. Rauði Krossinn auglýsir því eftir áhugasömum um að gerast sjálfboðaliðar í verkefninu.
Til þess að geta tekið þátt í verkefninu þurfa hundarnir að standast grunnhundamat, sem er undanfari Hundavinanámskeiðs, en skráning stendur nú yfir fyrir grunnhundamat á höfuðborgarsvæðinu, sem fram fer á þriðjudag og fimmtudag í næstu viku.
Hægt er að skrá sig í grunnhundamatið á heima síðu Rauða Krossins.