Fólk og fyrirtæki farga rusli reglulega á skógarreitum innan höfuðborgarsvæðisins að sögn Brynjólfs Jónssonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Kostnaður við hreinsun fellur svo alfarið á skógræktarfélögin.
„Þetta er viðvarandi vandamál, en er þó stærst í þéttbýlinu hér á höfuðborgarsvæðinu. Það ber nú ekki mikið á því að heilu búslóðirnar eða að byggingarverktakar séu að gera það sama úti á landi. En á höfuðborgarsvæðinu er þetta stórt vandamál,“ segir Brynjólfur í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is fjallaði um á dögunum rákust hjón á sorphrúgu á hjólaferð í Heiðmörk. Svo kom í ljós að umhverfissóðinn var erlendur verktaki sem hafði boðist til að farga rusli fyrir unga konu á lágu verði.
Brynjólfur segir að þeir sem stundi þá iðju, að fleygja sorpi á skógarreitum, séu oft á tíðum verktakar og úrgangurinn því þungur og erfiður viðureignar. Sjálfur kveðst hann hafa séð að fólk og verktakar mæti með heilu búslóðirnar til að farga út í náttúruna.
„Það getur reynst erfitt að hreinsa þetta upp. Það er kannski verið að farga heilum steypuklumpum og alls kyns byggingarefni.“
Kostnaður við að fjarlægja ruslið fellur svo alfarið á skógræktarfélögin.
„Þetta getur talið tugi eða hundruðum þúsunda króna fyrir félögin að hreinsa þetta upp. Skógræktarfélögin eru með samning við sveitarfélögin um umhirðu á svæðunum og því er alveg spurning hver eigi að borga brúsann,“ segir Brynjólfur að lokum.
Í aðalfundarályktun Skógræktarfélags Íslands var ályktað um þetta vandamál, en aðalfundur félagsins var haldinn í byrjun september.
„Jafnframt hvetja skógræktarfélögin sveitarfélög til að tryggja að móttökustöðvar fyrir sorp séu aðgengilegar á öllum tímum þannig að ekki komi til þess að íbúar hendi almennu sorpi inn í skógarreiti í grennd við þéttbýli.
Í dag fellur mikill kostnaður á skógræktarfélög um allt land við hreinsun á sorpi úr skógarreitum og fellur hann alfarið á félögin,“ segir meðal annars í ályktuninni.