Gert að svara spurningu í eitrunarmáli flugfreyju

Flugfreyjan telur sig hafa orðið fyrir eitrun um borð í …
Flugfreyjan telur sig hafa orðið fyrir eitrun um borð í vél Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur gert dómkvöddum matsmönnum að svara spurningu í skaðabótamáli flugfreyju gegn Icelandair og þar með fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Flugfreyjan veiktist alvarlega í flugi í ágúst fyrir fimm árum og telur sig hafa orðið fyrir eitrun um borð í vél Icelandair. Er matsmönnum gert að svara spurningu í fimm liðum, að því er Ríkisútvarpið greinir frá.

Dómkvaddir matsmenn voru kallaðir til að leggja mat á hvort rekja mætti andleg og líkamleg einkenni flugfreyjunnar til þess að hún hefði orðið fyrir eitrun í starfi sínu.

Komust matsmennirnir að þeirri niðurstöðu í mars á þessu ári að ekki hefði verið sýnt fram á orsakasamband milli einkenna flugfreyjunnar og eitrunar um borð í vélinni.

Töldu sig ekki geta svarað spurningunni

Matsmennirnir töldu sig ekki geta svarað síðari spurningu matsgerðarinnar sem fólst í að leggja mat á tímabundið og varanlegt líkamstjón flugfreyjunnar vegna veikindanna. Lögmaður flugfreyjunnar krafðist þess að matsmennirnir yrðu látnir svara þeirri spurningu sem er í fimm liðum.

Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu með vísan til þess að ekki væri hægt að láta þá leggja mat á afleiðingar heilsubrests á grundvelli forsendu sem þeir hefðu nánast slegið föstu að væri ekki til staðar.

Landsréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi í síðustu viku þar sem ekki verði talið að spurningin sé bersýnilega þýðingarlaus. Þó sé óvíst hvort svör við henni muni í reynd koma flugfreyjunni að notum.

mbl.is
Loka