Hátt í tvö þúsund manns hafa skráð sig

Heilsugæslan er á Aðaltorgi í Reykjanesbæ.
Heilsugæslan er á Aðaltorgi í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Aðaltorg

Hátt í 2.000 íbúar á Suðurnesjum hafa þegar skráð sig á Heilsugæsluna Höfða Suðurnesjum sem opnaði í Reykjanesbæ fyrir tæpum tveimur vikum. Þetta er eina sjúkratryggða heilsugæslan á landsbyggðinni.

„Viðtökurnar hafa verið frábærar. Allir sem hafa komið til okkar hafa verið afskaplega jákvæðir, spenntir og sumir meira að segja gert sér ferð upp á heilsugæsluna bara til þess að skrá sig á stöðina,“ segir Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri heilsugæslunnar, í samtali við mbl.is.

Geta þjónustað allt að 12 þúsund manns

Þegar starfsemin verður komin á fullt verður hægt að þjónusta allt að 11-12 þúsund manns. Nú starfa á heilsugæslunni fimm læknar auk afleysingalækna, fjórir til fimm hjúkrunarfræðingar, ein ljósmóðir, ritari og heilbrigðisgagnafræðingur.

„Við viljum að þetta fari rólega af stað, stækki ekki of hratt enda hefði það ekki verið okkur til bóta hefði allt fyllst og 11-12 þúsund manns skráð sig strax,“ segir Gunnar og bætir við:

„Það er betra að kynnast staðháttum og þörfinni, hvernig hún er, þannig að við getum stækkað í takt við þörfina. Það er ekki gott að búa til eftirspurn sem er ekki til staðar. Við viljum þjónusta þá sem ekki hafa þjónustu.“

Starfsmönnum mætt af mikilli hlýju

Nú eru 6.000 íbúar á Suðurnesjum skráðir á heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu og segir Gunnar að þetta sé því nýr valkostur fyrir þá sem hafi hingað til þurft að sækja heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar og geti um leið „sparað sér ferð í bæinn“.

Öll hefðbundin heilsugæsluþjónusta er veitt á heilsugæslunni, ungbarnavernd, mæðravernd og svo er almenn vakt sem opin er frá klukkan 8 til 17 á daginn.

„Það er nýtt fyrir okkur að starfa á Suðurnesjunum og það er því búið að vera frábært að sjá, miðað við fyrri umfjallanir á stöðu heilbrigðismála á Suðurnesjum, hvað fólkinu okkar er búið að vera mætt af mikilli gleði og jákvæðni frá fólkinu sem er að skrá sig. Það er alveg einstakt.“

mbl.is
Loka