Íslendingur særðist í skotárásinni í Kristjaníu

Íslensk kona á fertugsaldri særðist í árásinni í Kristjaníu í …
Íslensk kona á fertugsaldri særðist í árásinni í Kristjaníu í lok ágúst. Samsett mynd

„Þetta var ógeðsleg lífsreynsla,“ segir íslensk kona á fertugsaldri sem lenti í skotárás í Kristjan­íu í Kaup­manna­höfn í lok ágúst. Þrítugur maður lést og fjórir særðust, þar á meðal konan, sem fékk byssuskot í fingurinn.

Konan, sem vill ekki láta til nafns síns getið, ræddi við blaðamann mbl.is símleiðis en hún dvelur enn í Danmörku og er undir eftirliti lækna þar. Hún býr þó á Íslandi og starfar á sambýli fyrir börn með fötlun ásamt því að leggja stund á sjúkraliðanám. 

Skelkuð ef hún heyrir skelli

„Þetta er allavega betra en þetta var,“ svarar hún spurð hvernig henni líði í dag. Hún segist loksins vera farin að sofa betur og hætt að dreyma „ógeðslegar“ martraðir. Hún sé þó ennþá hvekkt og lýsir því hvernig hún verði skelkuð ef hún heyrir óvænt skelli. 

Konan fór í sumarfríinu sínu til Kaupmannahafnar þar sem hún hitti bróður sinn sem býr í Danmörku. Þau ætluðu einungis að dvelja í borginni í tvær nætur. 

Íbúar í Kristjan­íu í Kaup­manna­höfn vildu loka Pus­her-stræti, sem frægt …
Íbúar í Kristjan­íu í Kaup­manna­höfn vildu loka Pus­her-stræti, sem frægt er fyr­ir kanna­bis­sölu und­ir ber­um himni, eftir árásina. AFP/Martin Sylvest/Ritzau Scanpix

„Það er búið að skjóta mig“

Laugardagskvöldið 26. ágúst ákváðu systkinin að heimsækja Kristjaníu en konan hafði aldrei komið þangað áður. 

Lög­reglu var til­kynnt um skotárás klukk­an 19.25, eða kl. 17.25 að ís­lensk­um tíma.

„Við vorum bara nýkomin þarna og vorum við innganginn. Í því koma tveir menn labbandi og labba inn í húsið [Stjörnu­skips­bygg­ing­una í Pus­her-stræti í Kristjan­íu] – bróðir minn sat á bekk við hurðina – og svo heyri ég síðan tvo skothvelli.“

Á þeim tímapunkti hélt hún að um flugelda eða annað slíkt væri að ræða, „mér datt þetta ekki í hug“.

Er hún áttaði sig á því að um skotárás væri að ræða segir hún hugann ekki hafa viljað trúa því. 

Hún segir að yfir 30 skotum hafi verið hleypt af en eitt af fyrstu skotunum hæfði fingur hennar. Þá hafi hún fundið fyrir dofa koma upp höndina.

„Og ég sagði: „Það er búið að skjóta mig“.“

Bróðir hennar hafi ekki trúað henni til að byrja með. 

„Bróðir minn reif strax í mig og byrjaði að hlaupa af stað. En við vissum ekkert um neinn annan útgang eða eitt né neitt. Við vissum ekkert hvert við vorum að hlaupa,“ segir hún og nefnir að hún hafi ekki haft tíma til að líta á höndina á sér fyrr en þau voru komin í skjól. Þá vissi hún ekki hvort byssukúlan væri enn inni í hendinni. 

Tveir grímu­klædd­ir menn í dökk­um föt­um, hvor um sig með …
Tveir grímu­klædd­ir menn í dökk­um föt­um, hvor um sig með byssu í hendi, hleyptu af við Stjörnu­skips­bygg­ing­una. AFP/Emil Helms/Ritzau Scanpix

„Nú er ég að fara að deyja“

„Ég hugsaði bara: „Nú er ég að fara að deyja“. Ég hélt bara að þeir væru á eftir okkur öllum sem vorum þarna.“

Mennirnir tveir voru í vindjökkum þar sem þeir földu byssurnar og höfðu lambhúshettur á höfði.

„Ég hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi,“ segir hún en árásin tengdist átök­um tveggja glæpa­sam­taka, Loyal to Familia og Hell’s Ang­els. Sá látni hafði tengsl við þau síðarnefndu. 

Fjórir hafa verið handteknir í tengslum við árásina, en einungis annar þeirra sem hleypti af skotum hefur verið handtekinn.

Hún segir að mennirnir tveir hafi skotið í allar áttir og eftir á hafi hún verið öll út í blóði, ekki bara sínu eigin, en líkt og áður sagði særðust fjórir í árásinni. 

Ljósmynd/Aðsend

Fór í gegnum kjúkuna

Konan segir að um hálftíma eftir árásina hafi hún farið inn í lögreglubíl þar sem það var ekki óhætt fyrir sjúkrabíla að nálgast svæðið. Fyrir það hafi ókunnug kona látið hana fá tusku til að vefja um höndina. 

Við tók bið í lögreglubílnum og það var ekki fyrr en um klukkan 20.30 að staðartíma sem hún komst loks undir læknishendur. 

Það var síðan ekki fyrr en að morgni þriðjudags, þremur dögum eftir árásina, sem hún gekkst undir skurðagerð til þess að reyna bjarga fingrinum. Skotið fór í gegnum kjúkuna á litla fingri. Því er erfitt fyrir beinin að vaxa saman. 

Næsta fimmtudag verður prófað að losa málmpinna sem er í fingrinum og beygja fingurinn. „Sjá hvort þetta verður ógeðslega vont eða ekki. Ef þetta verður ógeðslega vont þá þarf ég að vera með þetta járnstykki lengur.“ Það á síðan eftir að koma í ljós hvort fingurinn verði tekinn af. 

Hún segist enn finna fyrir miklum verkjum og er því á sterkum verkjalyfjum ásamt sýklalyfjum.

Danska lögreglan tjáði henni að henni bæri skylda til að …
Danska lögreglan tjáði henni að henni bæri skylda til að bera vitni. AFP/Emil Helms/Ritzau Scanpix

Mikill kostnaður 

Hún ákvað að vera áfram í Danmörku hjá bróður sínum eftir árásina þar sem læknarnir úti þekki málið vel og séu mjög færir sérfræðingar.

Hún nefnir þó að mikill kostnaður fylgi því að vera í Danmörku og hún hafi eytt að minnsta kosti 100 þúsund krónum í lyfjakostnað, meðal annars vegna þess að lyf sem hún tekur að staðaldri eru dýr þarna úti.

Hún segist hafa haft samband við borgaraþjónustu Íslands í kjölfar árásarinnar en enga aðstoð fengið. 

Skylda að bera vitni 

Danska lögreglan tjáði henni að henni bæri skylda til að bera vitni við réttarhöld í málinu í óþökk hennar, því eins og áður sagði var um að ræða átök á milli tveggja stærstu glæpagengja Danmerkur.

Hún bindur vonir við að koma bráðum heim til Íslands. Óvissa ríkir um hvenær hún getur farið aftur að vinna en hún má ekki reka fingurinn í neitt. Hún er þó staðráðin í að láta skotárásina ekki eyðileggja framtíðarplön hennar. 

Hún segir að lokum að þau systkinin séu „guðs lifandi fegin að vera á lífi“.

mbl.is
Loka