Mikilvægt að varpa ljósi á þennan hóp samfélagsins

Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Davíð Peterson Short, Santiago Castillo og Magnús Gíslason …
Hólmfríður Bjartmarsdóttir, Davíð Peterson Short, Santiago Castillo og Magnús Gíslason við frumsýninguna í dag. mbl.is/Óttar

„Myndin fjallar um innflytjandann Fernando sem er lagður í einelti í skólanum sínum,“ segir Magnús Gíslason, leikstjóri stuttmyndarinnar Angurværð. Myndin var frumsýnd í Bíó Paradís í dag en allir leikarar myndarinnar, auk leikstjóra, eru yngri en 16 ára.

„Síðan kemur ný stelpa [Dulce] í skólann sem er líka innflytjandi. Hún er að bíða eftir að fá landvistarleyfi og þau verða mjög góðir vinir og hann verður hrifinn af henni,“ segir Magnús.

Dulce hljóti síðan ekki landvistarleyfi og þegar hún fari úr landi versni eineltið í garð Fernando.

Hugmyndin kom við píanóleik

Spurður hvaðan hugmyndin að myndinni hafi komið segir Magnús hann hafa fengið hana þegar hann var að leika á hljóðfæri.

„Ég spila mikið á píanó og þegar ég er að spila eitthvað lag þá get ég ímyndað mér einhverja senu þegar ég er að spila lagið og bý svo til sögu út frá því,“ segir hann en bætir við að hann æfi ekki á píanó heldur spili aðallega sér til gamans. Aðspurður segist hann ekki hafa sérstök tengsl við mál af þessum toga. 

Magnús segir ferlið hafa gengið vel fyrir sig. „Ég byrjaði á handritinu í janúar og svo kláraði ég það í maí.“

Tökur á myndinni hafi svo byrjað í ágúst. Hann segir leikarana aðallega vera vini sína en að einn af leikurunum hafi komið í prufu. Spurður um boðskap myndarinnar segir Magnús það vera að koma vel fram við aðra.

Hann segist hafa búið til nokkrar stuttmyndir áður en Angurværð sé sú stærsta hingað til. Aðspurður segir hann fleiri myndir vera á leiðinni. „Ég er að plana næstu stuttmynd núna á næsta ári.“

Erfitt að flytja til nýs lands

Santiago Castillo leikur Fernando, í aðalhlutverki myndarinnar. Hann segir það mikilvægt að varpa ljósi á þennan hóp samfélagsins, „svo fólk sjái frá okkar sjónarhorni hvernig þetta er“. Santiago flutti sjálfur til Íslands á síðasta ári.

„Það er erfitt að flytja til nýs lands, læra nýtt tungumál og kynnast nýju fólki,“ segir hann. Margir í þessum sporum séu hræddir. Það sé því mikilvægt að skilja aðstæður þeirra. 

Auk Santiago leika Hólmfríður Bjartmarsdóttir og Davíð Þór Peterson Short í myndinni en samhliða því sinntu þau ýmsum verkefnum á bak við myndavélina. Spurð hvort þetta séu mál sem ungt fólk láti sig varða í dag svara þau því játandi.

mbl.is
Loka