Olga Prudnykova er Íslandsmeistari í skák eftir að hún sigraði á Íslandsmóti kvenna í dag.
Fyrir lokaumferðina hafði Olga Prudnykova, sem er úkraínskur flóttamaður búsett hér á landi, hálfs vinnings forskot á tvær skákkonur, þær Lenku Ptácníkovu, sem er fjórtánfaldur Íslandsmeistari, og Guðlaugu Þorsteinsdóttur, sem er sexfaldur Íslandsmeistari. Þetta kemur fram í tilkynningu Skáksambands Íslands.
Þær Olga og Lenka mættust í lokaumferðinni og var ljóst að sigur myndi tryggja Olgu titilinn. Sigur Olgu var öruggur en hún hlaut fjóran og hálfan vinning af fimm mögulegum.
Guðlaug og Lenka urðu jafnar í öðru til þriðja sæti. Þar með lauk samfelldri ellefu ára sigurgöngu Lenku á mótinu.
Olga er úkraínskur flóttamaður og býr á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni. Þrátt fyrir að vera ekki íslenskur ríkisborgari er hún Íslandsmeistari í skák þar sem hún hefur rétt til að tefla fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum mótum. Frumraun hennar sem íslenskur landsliðsmaður verður á EM landsliða sem haldið verður í Svartfjallalandi í nóvember.