Vilja auka lífsgæði jaðarsettra karla

„Ég hef lengi komið að málum karla sem eru verst staddir í samfélaginu og rann hreinlega blóðið til skyldunnar,“ segir Kristján Már Magnússon, sálfræðingur á Akureyri, sem ásamt fleirum stefnir að því að opna þekkingarmiðstöðina Skref til bata.

„Flestir sem eru á jaðrinum og fyrir utan samfélagið eru karlar, sjálfsvíg eru mun tíðari hjá þeim en konum og mun fleiri karlar eru útigangsmenn. Þess vegna horfum við til þeirra í þessu verkefni,“ bætir Kristján Már við.

Yfirlýst markmið Skrefs til bata er að auka lífsgæði þátttakenda, styrkja þá til að lifa ánægjulegu lífi gegnum virkni í samskiptum og virka þátttöku í samfélaginu, draga úr geðrænum einkennum og styrkja aðlögunarhæfni og koma þannig í veg fyrir einangrun, bakslag eða endurinnlögn á geðdeild.

Kveikjan að verkefninu var farsælt samstarf Kristjáns Más og Rúnars Friðrikssonar, starfsmanns félagsþjónustunnar í Fjallabyggð, við að hjálpa ungum manni að komast á réttan kjöl í lífinu.

„Þar rákumst við á hversu erfitt er að ná samstöðu um þessi mál, það er eftirmeðferð, stuðning, félagsleg úrræði og annað slíkt enda koma alla jafna margir aðilar að þessu, það eru sveitarfélögin, læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, félagsþjónustan og fleiri. Fyrir vikið getur verið erfitt að ná saman og þá er hætt við því að þjónustan verði í skötulíki,“ segir Kristján Már.

Kristján Már Magnússon.
Kristján Már Magnússon.

Yfir 100 ára starfsreynsla

Stjórnendur Skrefs til bata eru allt fagmenn á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu, með samanlagt yfir 100 ára starfsreynslu. Auk Kristjáns Más og Rúnars eru það Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, Fjölnir Guðmannsson heimilislæknir og Hlynur Erlingsson sálfræðingur.

„Við erum allir með sterk tengsl inn í kerfið og höfum fyrir vikið góða innsýn. Sjálfur hef ég til dæmis lengi verið fulltrúi þeirra sem lagðir eru inn á geðdeild gegn sínum vilja á Akureyri og hef líka unnið fyrir Heimilisfrið, sem er úrræði fyrir karla sem beitt hafa heimilisofbeldi,“ segir Kristján Már.

Gert er ráð fyrir að endurhæfingin eða meðferðin vari 10 til 12 mánuði. Úrræðið er ekki ætlað til varanlegrar búsetu, heldur er því ætlað að efla einstaklinga sem hafa átt við geðraskanir að stríða þannig að þeir geti betur staðið á eigin fótum og tekið ábyrgð á eigin hegðun og lífsstíl. Körlunum er boðið upp á aðstæður til að þroskast við breyttar aðstæður og eflandi samskipti við starfsfólk og jafningja.

Í samvinnu við sveitarfélögin verður frá upphafi endurhæfingardvalar unnið að því að hver notandi útskrifist í búsetu og eftirfylgd félagsþjónustu, eftir þörfum hvers og eins; í heimahús, á leigumarkað, í félagslega íbúð, íbúð með stuðningi eða sértæka búsetu, það er sambýli.

Funda með ráðherra

Skref til bata – þekkingarmiðstöð vinnur nú að fjármögnun verkefnisins. Að sögn Kristjáns Más hafa gagnleg samtöl átt sér stað við Akureyrarbæ, sem lýst hefur vilja til að hjálpa miðstöðinni í húsnæðismálum. „Næsta stóra skref er fundur með heilbrigðisráðherra nú á haustdögum, sem vonandi er tilbúinn að leggja okkur lið,“ segir Kristján Már.

Þá verður leitað samninga við Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, VIRK, Starfsendurhæfingu Norðurlands og Fjölsmiðjuna um þjónustu fyrir notendur Skrefs til bata, eftir þörfum þeirra.

Nánar er rætt við Kristján Má um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka