„Þessi hátíð verður haldin í minningu Fjölnis í Iðnó, það verður alveg hellingur af tónlist auk húðflúrlistamanna, íslenskra og annars staðar frá,“ segir Rúnar Hroði Geirmundsson, millinafnið þó einungis viðurnefni en ekki blessað úr ranni mannanafnanefndar enn sem komið er.
Rúnar vísar hér til húðflúrhátíðarinnar Is Tatt Fest sem haldin verður í menningarhúsinu Iðnó við Vonarstrætið um helgina, 29. september til 1. október, en hann annast kynningarmál viðburðarins.
Hátíðin er ekki ný af nálinni, henni hleypti Fjölnir Geir Bragason heitinn af stokkunum, Fjölnir tattú, einn kunnasti húðflúrlistamaður landsins sem lést langt fyrir aldur fram í desember 2021, harmdauði stórum hópi húðflúráhugafólks og fjölda annarra en Fjölnir var vinmargur með afbrigðum og setti svip sem seint gleymist á póstnúmer 101 í Reykjavík enda mátti iðulega rekast á hann á vappi þar um árabil.
„Allir sem kaupa sig inn eiga þess kost að vinna veglega vinninga, húðflúr og fleira, en passi fyrir einn dag kostar 1.500 krónur og 3.500 fyrir alla dagana,“ heldur Rúnar áfram og bætir því við að keppt verði í mismunandi húðflúrstílum, þar á meðal í einum glænýjum og spennandi sem gengur undir heitinu „Besta Wutang-tattúið“.
Keppnin fari þó ekki fram með þeim formerkjum að listamenn vinni verk sín frá a til ö yfir helgina heldur er þeim frjálst að tefla fram viðskiptavinum sínum sem þeir hafa verið að flúra upp á síðkastið og klára svo verkið á hátíðinni.
„Það spyrst út að það sé keppni og fólk sækir um að koma,“ svarar Rúnar, inntur eftir því eftir hvaða leiðum erlendu listamennirnir sæki hátíðina, en bætir því við að aðstandendur keppninnar hafi einnig samband við erlenda listamenn og freisti þeirra.
Fjöldi tónlistarmanna mun setja svip á Is Tatt Fest auk þeirra listamanna sem vinna með nálar og blek. Á föstudag spila Sóðaskapur, Boob Sweat Gang, Kristo & Co., Grunge-rokkmessan, Háskólarokkveislan og Krummi. Á laugardagskvöld taka við plötusnúðar á borð við Sbeenaround, Thorkellmani, Samwise og Sleazy og skapa rafmagnaða stemmningu á dansgólfinu.
Á sunnudaginn segir Rúnar þó einn mest spennandi dagskrárliðinn taka yfir. Þá verði lottóvélin dregin fram en allir sem keyptu miða verða sjálfkrafa í pottinum. Þar má meðal annars vinna vegleg húðflúr kunnra listamanna, full sleeve eftir Aksel, einn dag í flúti hjá Stanislav Kortchevoi, gjafabréf hjá Screamson Hariu auk fatnaðar, tímakorts í knattborðsleiki og fleira.
Svo enginn verði nú hungurmorða á blekmessunni verða það Kim Young Wings sem leggja undir sig eldhúsið í Iðnó meðan á hátíðinni stendur og töfra fram kjúklingavængi, vefjur og annað nasl, segir Rúnar Hroði Geirmundsson frá að lokum.
Fjölnir Geir Bragason var fæddur 5. febrúar 1965 og hóf nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1991 þar sem leiðir þeirra Jóns Páls Halldórssonar lágu saman en Fjölnir gerðist svo lærlingur hjá Jóni Páli, landskunnum flúrlistamanni kenndum við JP Tattoo, árið 1995.
Þeir félagar hófu svo húðgötun, eða piercing, til vegs og virðingar á Íslandi eftir að þeir hófu að gata árið 1996. Þegar Jón Páll hélt til Kanada til náms í grein sem kallast classical animation tók Fjölnir við stofunni á meðan lærifaðir hans menntaði sig í Vancouver. Varð annríkið slíkt þar sem Fjölnir mundaði nálina að þekkt var að biðröð lægi fram á gang á föstudögum og laugardögum í húsnæðinu sem fjöldi húðflúraðra Íslendinga man glöggt eftir, stofu JP Tattoo við strætisvagnabiðstöðina á Lækjartorgi.
Fjölda sagna má rifja upp af Fjölni, svo sem snákabúskap sem hann tók ástfóstri við á tímabili fyrir aldamótin síðustu og átti hann meðal annars gæludýrið Fífí, átta metra langa búrmíska pýtonslöngu, er hann hélt á heimili sínu við Laugaveg. Ekki segir af því hvort vel fór á með Fífí og nágrönnum við Laugaveginn eða hvort fundum þeirra bar saman að ráði.
Fjölnir og Jón Páll voru iðnir við húðflúrferðir á landsbyggðina og flúruðu meðal annars á Ísafirði og Eskifirði auk fjölda annarra staða.
Síðar ferðuðust Fjölnir og Jón Páll, ásamt húðflúrlistamanninum Búra, tíðum til Skandinavíu á húðflúrráðstefnur og eignuðust fjölda vina og kunningja á alþjóðvettvangi auk þess sem Fjölnir stofnaði síðar eigin ráðstefnu í Færeyjum, Fo Tatt Fest, sem enn er haldin.