Borgin hefur lengi kallað eftir hjúkrunarheimili við Mosaveg í Grafarvogi, enda benda spár til þess að brýn þörf sé á að fjölga hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Skipulagsmálum er lokið og því ætti ekkert að vera að vanbúnaði að hefja framkvæmdir.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að framkvæmdir á hjúkrunarheimili við Mosaveg í Grafarvogi hefðu tafist í skipulagi hjá Reykjavíkurborg. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þó í samtali við mbl.is að skipulagsmálum sé lokið og því sé ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir.
Árið 2021 skrifuðu Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undir samkomulag um að hefja byggingu hjúkrunarheimilis við Mosaveg í Grafarvogi og áttu framkvæmdir að hefjast það sama ár.
„Við höfum lengi kallað eftir þessu hjúkrunarheimili og raunar fleirum vegna þess að okkar spár, eins og annarra, benda til þess að það sé brýn þörf á því að fjölga hjúkrunarrýmum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum,“ segir Dagur sem fundaði með heilbrigðisráðherra um málið í sumar.
Dagur segist vona að ríkið hefjist handa við byggingu hjúkrunarheimilisins enda sé skipulagsmálum lokið og því ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir.
„Það ætti ekki að taka mörg ár að koma þessu heimili í rekstur,“ segir hann.
Var ráðherra þá ekki með nýjustu upplýsingar um skipulagsmál?
„Það tók einhvern tíma að útfæra þetta í skipulagi en deiliskipulagið lá fyrir fyrr á þessu ári,“ segir Dagur og ítrekar að því sé ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir.
Dagur segir að þeir Willium séu sammála um að byggja þurfi upp hjúkrunarheimili hraðar en gert hefur verið. Því auglýsti borgin eftir áhugasömum uppbyggingaraðilum, ekki einungis fyrir hjúkrunarheimili heldur einnig fyrir uppbyggingu húsnæðis fyrir eldri borgara.
„Við viljum skilgreina á nokkrum svæðum í borginni svokallaða lífsgæðakjarna þar sem verður blönduð þjónusta fyrir eldra fólk meðal annars og hjúkrunarheimili þar sem við á.“
Þegar hafa borist margar hugmyndir og því verður opin fundur í Ráðhúsi Reykjavíkur á miðvikudagsmorgun kl. 9. Á fundinum verða kynntar þær hugmyndir sem bárust og í hvaða viðræður borgin hyggst fara í.
„Við erum með býsna metnaðarfullar áætlanir varðandi húsnæðisuppbyggingu fyrir eldra fólk til næstu missera. Hjúkrunarheimili eru hluti af því þó að bygging þeirra sé og verði alltaf á höndum ríkisins,“ segir Dagur.