Ekki draumur að vera með dáta

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs.
Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs. mbl.is/Árni Sæberg

„Við þurfum að hætta að endurskrifa þessa sögu sem einhvern draum að vera með dáta. Það varð þín afplánun að dreyma um að vera með dáta,“ segir Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur. Hún telur mikilvægt að gangast við því misrétti sem stúlkur á ástandsárunum voru beittar.

Sigga Dögg, eins og hún er betur þekkt, heldur úti vefnum Betra kynlíf, kynfræðsla fyrir fullorðna, en heimildarmyndin „Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum,“ er nú hvergi annars staðar aðgengileg. Í vikunni ræddi hún við Ölmu Ómarsdóttur, fréttakonu og leikstjóra myndarinnar, í viðtali aðgengilegu fyrir áskrifendur Betra kynlíf

Til dæmi um kvikmyndir sem hafa týnst

Í samtali við mbl.is kveðst Sigga Dögg fyrst hafa séð myndina árið 2015. Hún hafi verið sleginn yfir atburðunum og frásögnum í myndinni og furðað sig á því að þessi hluti sögunnar væri ekki kenndur í skólum.  

Hún segir Ölmu ítrekað hafa fengið beiðnir frá kennurum um aðgengi að myndinni, en hún hefur ekki verið aðgengileg á neinni streymisveitu. Námsgagnastofnun hafi ekki haft áhuga á að kaupa sýningarleyfi þar sem þau hýsi ekki efni sem þau sjá ekki um útgáfu á. Sigga Dögg kveðst ekki hafa mikinn skilning fyrir því.  

Alma hafi því lengi verið að senda kennurum hlekki á myndina gjaldfrálst. Sigga Dögg segir það réttindamál að hún fái greitt fyrir verkið og það sé tryggt með því að veita aðgengi í gegnum streymisveitu. „Það eru líka bara til dæmi um kvikmyndir sem hafa týnst.“

„Guð sefur þú hjá útlendingum“

Sigga Dögg segir myndina mikilvægan hlekk í kennslu til að skilja samfélagið, söguna og hvert fordómar og druslusmánun hafi rætur sínar að rekja, í stað þess að raula Það er draumur að vera með dáta.

Hún segir aðförina að stúlkum og konum vegna samskipta þeirra við erlenda hermenn vera eitt af fyrstu dæmum landsins um druslusmánun og útlendingaandúð, en jafnvel barnungar stúlkur voru teknar í yfirheyrslu eða sendar á vistheimilið í Kleppjárnsreykjum án samráðs við foreldra þeirra.

Fjöldi kvenna og stúlkna voru sendar á vinnuhælið á Kleppjárnsreykjum …
Fjöldi kvenna og stúlkna voru sendar á vinnuhælið á Kleppjárnsreykjum vegna samskipta við erlenda hermenn.

Voru settar í meyjarhaftsskoðun

„Við erum enn að súpa seyðið af þessu,“ segir Sigga Dögg sem segist enn fá spurningar um hvort nokkuð sé hægt að smitast af kynsjúkdómum við að stunda kynlíf með Íslendingum. 

Þá minnist hún þess að vinkona hennar hafi fundið smokka í veskinu hennar þegar þær voru tvítugar og hrópað upp yfir sig: „Guð sefur þú hjá útlendingum!“   

Sigga Dögg bendir einnig á meydómsmýtuna sem dæmi um arfleifð frá m.a. ástandstímabilinu, en margar stúlknanna voru sendar í svokallaða meyjarhaftsskoðun til að ganga úr skugga um að þær hafi ekki stundað kynlíf með hermennunum.

Mýtan sé enn á lífi í samfélaginu og margir trúi að meyjarhaftið sýni fram á hreinleika eða meydóm. 

Sigga Dögg segir skömmina enn mikla meðal margra þeirra kvenna sem voru vistaðar á Kleppjárnsreykjum og að það hafi reynst Ölmu erfitt á sýnum tíma að fá þær í viðtal við gerð heimildarmyndarinnar. 

„Það er svo mikil skömm og svo mikil smán að þær eiga bara erfitt með að ræða þetta.“

Ekki verið rannsakað líkt og önnur vistheimili

Að mati Siggu Daggar er það mikilvægt að yfirvöld gangist við misgjörðum þáverandi yfirvalda gagnvart konunum og biðji þær afsökunar.

22 þingmenn lögðu nýverið fram þingsályktunartillögu um rannsókn á Klepp­járns­reykj­um og aðgerðum ís­lenskra yf­ir­valda gegn sam­skipt­um ís­lenskra stúlkna við er­lenda her­menn. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, vinnur nú einnig að frumvarpi um sanngirnisbætur sem gæti þá einnig átt við um stúlkurnar sem vistaðar voru á Kleppjárnsreykjum, en heimilið hefur ekki verið rannsakað líkt og önnur vistheimilamál. 

mbl.is
Loka