Nýtt fangelsi sem kemur í stað Litla-Hrauns á eftir að bæta öryggi starfsmanna og fanga, ásamt því að gera heimsóknir aðstandenda auðveldari.
Þetta segir Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Litla-Hrauns.
Á blaðamannafundi í morgun var tilkynnt að nýtt fangelsi verður tekið í notkun á svæðinu eftir þrjú til fjögur ár ef allt gengur eftir.
Starfsmannaaðstaðan verður hönnuð þannig að mannskapurinn verður ekki eins dreifður og nú er, auk þess sem föngunum verður skipt upp þannig að öryggi þeirra gagnvart hverjum öðrum verður tryggt, að sögn Halldórs Vals.
„Hérna erum við með meira en helming allra lokaðra fangelsisplássa í landinu á einum stað og það segir sig bara sjálft að þegar þú ert með menn sem eiga jafnvel í deilum innbyrðis og jafnvel eiga sér einhverja sögu úr erfiðum samskiptum og þeir lenda báðir á Litla-Hrauni, þá tekur það gríðarlega mikið á, bæði hjá þeim og starfsfólkinu, að tryggja að það gangi upp. Með rétt hönnuðu húsi þar sem við skiptum hópnum rétt upp og látum húsið leysa þetta verkefni þá verður staðurinn mun öruggari fyrir alla,” greinir hann frá.
Halldór Valur og Páll Winkel fangelsismálastjóri sýndu blaðamönnum heimsóknarálmu Litla-Hrauns og ljóst er að þar er þörf á breytingum. Að sögn Halldórs Vals er um að ræða gamla fangaklefa sem voru dubbaðir upp sem heimsóknarherbergi.
„Þegar þú kemur á Litla-Hraun að heimsækja aðstandanda þá ertu líka að deila salerni og sameiginlegri aðstöðu með föngum sem eiga heimsókn á sama tíma og jafnvel aðstandendum þeirra sem þú ert ekkert kominn til að hitta,” segir hann.
Þar að auki eru aðgengismál óviðunandi því fara þarf upp tvo stigapalla til að komast í heimsóknarálmuna og engin lyfta er til staðar, sem myndi annars auðvelda aðgang fyrir fólk í hjólastóli eða fólk sem á erfitt með gang.
Halldór Valur nefnir einnig að bæði gestir og fangar þurfa að ganga framhjá læknastofum og heilsugæslustarfsfólki sem er að störfum á svæðinu.
„Allt krossast þetta þvert ofan í annað. Það er verið að reyna að nota allskonar rými sem voru alls ekki hönnuð fyrir þetta,” segir hann. „Það er vandamálið, það er alls ekkert pláss fyrir alla þá sérfræðinga og starfsmenn sem þurfa að vera til staðar. Þetta verður hugsað alveg heildstætt frá grunni með allar þessar þarfir í huga,” bætir hann við um nýja fangelsið.