Ferjan Röst, sem Vegagerðin gekk frá kaupum frá Noregi fyrr í þessum mánuði, mun fá nafnið Baldur líkt og forverar hennar hafa heitið í nærri heila öld.
Í tilkynningu sem birtist á vef Vegagerðarinnar, segir að til bráðabirgða mun nafnið þó vera Röst þar til gengið hefur verið frá öllum atriðum er varða skráningu á nýju nafni.
Ferjan, sem kom til landsins á dögunum, hefur lagst að bæði í Stykkishólmi og á Brjánslæk og gekk það vel. Einungis er þörf á smávægilegum breytingum en aðeins þarf að gera smávægilegar breytingar á aðstöðunni í Brjánslæk, sem felst í því að lækka endann á ekjubrúnni um nokkra sentímetra.
Ferjan fer nú í slipp hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði en þeir skipstjórnarmenn sem sigldu á ferjunni frá Noregi til Íslands eru mjög ánægðir með hversu gott sjóskip ferjan er og hvað hún fer vel með farþega um borð.