Heittrúaðir Stalínistar

Í bókinni Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir, rekur Rósa Magnúsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, lífshlaup Kristins E. Andréssonar og Þóru Vigfúsdóttur konu hans, en Kristinn var á sinni tíð mjög áhrifamikill í íslensku menningarlífi. Þau höfðu bæði mikið dálæti á Jósef Stalín og héldu trúnni allt til æviloka.

- Líf Þóru og Kristins var litað af þeirra pólitík og ekki síst það hve þau voru heittrúuð á Stalín. Það er að vissu leyti dapurlegt, en líka skondið, að þegar þau voru á ferð í Sovétríkjunum eftir andlát Stalíns fannst mönnum það vandræðalegt að þau væru enn sannfærð í sinni trú á Stalín.

„Það var einmitt eitt af því sem varð til þess að mig langaði til að skrifa þessa bók, að reyna að skila fólk eins og þau sem ákveður, eins og Kristinn 1934, þegar hann fer í fyrsta skipti til Sovétríkjanna þegar Stalín var þar allsráðandi, allsráðandi, að þetta væri ný heimssýn, ný heimsmynd, sem au aðhyllast alla ævi og hvika aldrei frá. Það voru ekki margir menntamenn á tuttugustu öld sem voru eins og þau, því flestir fóru að hugsa sinn gang þegar Krústsjef flutti leyniræðuna um Stalín 1956 og Sovétmenn fóru að hugsa á gagnrýnni hátt um Stalín en gert hafði verið áður. Þeir sem ekki höfðu orðið afhuga Sovétríkjunum árið 1956, hættu að hugsa fallega til þeirra 1968 þegar þau réðust inn í Tékkóslóvakíu, en Sovétmenn lentu í vandræðum með Kristinn, þeim fannst hann kaþólskari en páfinn.

Þeim fannst líka erfitt að hann fór að leita meira til Kína frá 1959, en þá var hann líka orðinn heimagangur hjá kínverska sendiráðinu í Kaupmannahöfn og þau Þóra fóru í heimsókn til Kína 1959 og verða aftur fyrir hugljómun: Fyrst að Sovétríkin voru svo leiðinlega að gagnrýna Stalín þá voru þau þarna komin með birtingarmynd þess hversu megnuð þessi hugmyndastefna er.“

- Þau héldu trúnni til dauðadags, þó að þau hafi haft mjög, mjög rangt fyrir sér eins og kemur vel fram í bókinni. Finnst þér þú skilja þau betur eftir að hafa skrifað sögu þeirra?

„Að vissu leyti mun ég aldrei skilja þau, því þau koma mér fyrir sjónir sem mjög vel lesin, búa í lýðræðisríki, þau eru alltaf að heyra andstæðar skoðanir og virka gáfuð að mörgu leyti, en svo er eins þau loki sig inni í eigin heimi að mörgu leyti. Það er eins og þau hugsi bara: Einhver verður að halda þessu áfram.

Þeim fannst alltaf erfiðast ef gagnrýnin á Sovétríkin kom úr þeirra þéttasta vinahópi, Þóra verður oft voðalega reið yfir því að einhver vinur fer að gagnrýna, en svo geta þau alltaf farið aftur heim og verið tvö saman og jújú: Við höldum áfram.

Að vissu leyti fannst mér mjög erfitt að skilja þetta, en kannski finnst mér það næstum því auðveldara í dag þegar við horfum á Rússland nútímans og sjáum hvað heilaþvotturinn gengur langt. Ég sá það náttúrlega í lífi Kristin og Þóru en svo er þetta í alvörunni ennþá hægt.“

mbl.is
Loka