Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna á Suðurlandi, segir ekki hafa verið gripið til neinna aðgerða vegna þeirrar skjálftavirkni sem hefur verið nærri Geitafelli um 10 kílómetrum norðvestur af Þorlákshöfn.
Hátt í 50 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan snemma í gærmorgun, þeir stærstu í kringum 3 að stærð.
„Ég er búinn að tala við þá stóru ferðaþjónustuaðila sem hafa verið með ferðir þarna á svæðinu, gengið úr skugga um að til staðar séu einhverjar rýmingaráætlanir ef eitthvað gerist, að menn séu meðvitaðir um ástandið og á tánum,“ segir Björn Ingi í samtali við mbl.is.
Segir hann að eingöngu hafi sem stendur verið rætt við þá sem eru að fara ofan í jörðina eða inn í hana en ekki við rekstraraðila hótela, aðra gististaði eða ferðaþjónustu.