Kostar 15 milljónir króna að fljúga

Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur.
Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Aðsókn í flugnám minnkaði töluvert á meðan faraldrinum stóð en er þó byrjuð að taka aftur við sér. Viðvarandi hindranir eru þó til staðar fyrir þá sem vilja sækja flugnám eins og kostnaður að sögn Hjörvars Hans Braga­sonar, skóla­stjóra Flug­skóla Reykja­vík­ur.

„Það er langvarandi vandamál á Íslandi með flugnámið hvað það er takmarkað aðgengi að lánsfé. Það gerir námið ekki að jafn spennandi kosti fyrir þann sem er að klára menntaskóla nema hann virkilega hafi þessa flugbakteríu í sér,“ segir Hjörvar í samtali við mbl.is.

Áætlaður kostnaður við að læra flug í dag til atvinnuflugmannsréttinda er um 15 milljónir króna. Innifalið í því er bókleg og verkleg kennsla til einka- og atvinnuflugmannsréttinda, flugtímar og gögn.

„Þetta er grátlegt“

Hjörvar segir að hið opinbera þurfi að stíga inn í til að koma í veg fyrir yfirvofandi flugmannsskort.

„Ferðaþjónustan er orðin okkar stærsta útflutningsgrein og þá hlýtur flug til og frá Íslandi að vera hryggjarstykkið í ferðaþjónustunni. Eitthvað þarf að gera til að liðka fyrir fleiri skráningar svo hægt sé að koma í veg fyrir þennan yfirvofandi skort.“

Varðandi kostnaðinn og meintan skort á lánsfé segir hann:

„Þetta er grátlegt. Svona hefur þetta verið síðan elstu menn muna. Það er óskiljanlegt af hverju flugnám fellur ekki betur inn í menntakerfið þannig að flugnemar standi jafnfætis öðrum nemum, hvort heldur iðnnemum eða háskólanemum,“ segir Hjörvar.

Hann segir að gott sé að setja þetta í samhengi við skipstjóranám sem sé mun ódýrara nám að hans sögn.

„Það hallar smá á flugnám á Íslandi hvað þetta varðar.“

Nóg af atvinnuframboði 

Atvinnuframboð fyrir flugmenn á Íslandi hefur farið vaxandi í kjölfar faraldursins. Segir hann Play Air, Icelandair, Norlandair, Air Atlanta og Landhelgisgæsluna öll vera að auglýsa laus störf. Það sé því nóg af tækifærum að námi loknu.

Eins og mbl.is hefur fjallað um þá hefur Flugakademía Íslands (FÍ) verið lögð niður vegna fjárhagsörðugleika og náðist samkomulag við Flugskóla Reykjavíkur um að taka að sér virka nemendur FÍ.

mbl.is