Sérstakt andrúmsloft í veislusal

Sakborningar bíða þess að koma fyrir dóminn.
Sakborningar bíða þess að koma fyrir dóminn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalmeðferð í Bankastræti Club-málinu hófst í dag. Átta sakborningar hafa verið kallaðir fyrir dóminn í málinu og bíður ákæruvaldsins og dómsins það vandasama verk að átta sig á þætti hvers og eins í málinu.

Eins og fram hefur komið er einn ákærður fyrir tilraun til manndráps og tíu fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og fimmtán fyrir hlutdeild í líkamsárás.

Réttargæslumaður og saksóknari í dómssal í Gullhömrum.
Réttargæslumaður og saksóknari í dómssal í Gullhömrum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fara yfir leiki helgarinnar  

Fátt gefur til kynna að inni í húsi Gullhamra sé hið umfangsmikla dómsmál tekið fyrir. Nema fyrir þær sakir að fyrir utan er lítið um bílastæði og lögreglubíll. Vel er tekið á móti blaðamönnum sem hafa meira að segja borð til að sitja við ólíkt því sem þeir eiga að venjast í héraðsdómi.  

Andrúmsloftið er um margt sérstakt fyrir dómsal. Sakborningar koma fram hver af öðrum. Dómari fer yfir þann þátt sem þeir eru sakaðir um. Því næst spyr ákæruvaldið sakborninga um málið. Þegar því er lokið geta allir 25 verjendurnir spurt þeirra spurninga sem brenna á þeim. 

Inn á milli eru hlé þar sem lögmenn standa og ráða ráðum sínum. Ræða um kaffiskort, það mikla pláss sem er í Gullhömrum ólíkt héraðsdómi og fara yfir leiki helgarinnar í enska boltanum. Kaffimálin eiga víst að komast í lag á morgun. 

Reynir á tæknina 

Eins og gefur að skilja reynir á tæknilega hluta málsins og einu sinni hefur dómari gert hlé til að fá úrbætur á tæknibúnaði. Það breytir því ekki að heyra mátti á lögmanni að hann teldi þetta málinu til vansa. Ekki sæist nægilega vel á myndböndunum það sem reynt væri að benda á. 

Fjölmiðlum er ekki heimilt að segja efnislega frá framvindu mála fyrr en rétturinn er búinn að kalla öll vitni og sakborninga til og ef að líkum lætur verður það á fimmtudag.

Hlé notuð til þess að ræða málin.
Hlé notuð til þess að ræða málin. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is