Varpar ljósi á „skelfilega aðstöðu“ héraðsdóms

Bankastræti Club málið fer fram í í Gullhömrum í dag.
Bankastræti Club málið fer fram í í Gullhömrum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á sjötta tug manna eru samankomnir í Gullhömrum í Grafarholti þar sem aðalmeðferð í Bankastræti Club-málinu fer fram í dag. Salurinn sem er notaður hefur almennt verið nýttur undir veisluhöld. Nú er hins vegar öðruvísi andrúmsloft á svæðinu. 

Lögmenn flissa saman, skipuleggjendur á þeysingi, blaðamenn hafa nægt rými til að athafna sig og hljómburður með besta móti.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og segir skipulagið hafa heppnast vel en mikil vinna sér þar að baki. Hún segist sammála blaðamanni þess efnis að óvenjulegt sé hver rúmt pláss allir hafa. Spurð hvort þetta geti leitt til þess að fleiri dómsmál fari fram utan hefðbundins staðar þá segir hún svo ekki vera. Héraðsdómur eigi ekki efni á því. 

„En þetta varpar kannski ljósi á það hversu skelfileg aðstaðan er í héraðsdómi,“ segir Ingibjörg. 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Hari

Tveir hafa játað á sig sök

Skipulagið er þannig að hinir ákærðu eru fyrir utan salinn. Þeir verða svo kallaðir inn einn af öðrum. Alls eru 25 sakborningar í málinu. Fram kemur að tveir hinna ákærðu hafa játað á sig sinn hlut í málinu en ekki liggur fyrir hvaða hlut að svo stöddu. Fjölmiðlum er ekki heimilt að færa fregnir af málinu á meðan skýrslutaka fer fram að beiðni dómara í málinu. Er áætlað að þeim ljúki á fimmtudag. 

mbl.is
Loka