70-80 sjúklingar sem ættu að vera annars staðar

Landspítali í Fossvogi.
Landspítali í Fossvogi. mbl.is

Miklar annir eru á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og er fólki sem ekki er í bráðri hættu bent á að hringja í símanúmerið 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru áður en leitað er á bráðamóttökuna.

„Staðan hefur þróast illa í dag hvað bráðamóttökuna varðar en þetta snýst hins vegar ekki um bráðamóttökuna. Í augnablikinu liggja inni á Landspítalanum 70-80 einstaklingar sem ættu að vera annars staðar. Áhrifin af því birtist á bráðamóttökunni. Á henni er fólk sem þarf að komast inn á spítalann en það myndast tappi. Það eru óvenjumargir inniliggjandi á spítalanum núna sem eru í raun útskrifaðir en komast ekki á sinn stað,“ segir Andri Ólafsson, fjölmiðlafulltrúi Landspítalans, í samtali við mbl.is.

Mögulega önnur úrræði í boði

„Landspítalinn, heilsugæslan og ráðuneytið hafa lagt áherslu á að fyrsti viðkomustaðurinn eigi að vera að hringja í símanúmerið 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru. Það er töluvert um það að fólk leiti á bráðamóttöku þegar mögulega eru önnur úrræði í boði,“ segir Andri en á bráðamóttökunni er forgangsraðað eftir bráðleika sem getur þýtt að fólk sem er ekki í bráðri hættu geti þurft að bíða lengur en annars eftir þjónustu þegar álagið er mikið eins og það hefur verið undanfarna daga.

mbl.is
Loka