Allt með miklum ólíkindablæ

Lögreglumaður, sem gaf vitnisburð fyrir dómi, sagði að söluverðmæti efnanna …
Lögreglumaður, sem gaf vitnisburð fyrir dómi, sagði að söluverðmæti efnanna væri á bilinu 17-34 milljónir kr. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karl og konu fyrir tilraun til móttöku fíkniefna sem send voru til landsins með póstsendingu frá Þýskalandi. Karlmaðurinn hlaut 12 mánaða dóm og konan 14 mánuði. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 21. september en var birtur í dag, að héraðssaksóknari hafi í mars ákært parið, þau Guðmund Þór Ármannsson og Ernu Ósk Agnarsdóttur, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þau neituðu bæði sök. Héraðsdómur segir framburðir þeirra hafi í öllum aðalatriðum verið afar ótrúverðugir og með miklum ólíkindablæ. 

Sóttu efnin í póstafgreiðslu

Í ákæru segir að þann 7. maí 2021 þau hafi í félagi í ónefndri póstafgreiðslu í Reykjavík, sótt og tekið á móti 342,15 g af metamfetamíni, með 99% styrkleika, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Fíkniefnin voru í umslagi sem kom hingað til lands með póstsendingu frá Þýskalandi 4. maí 2021 og var kona, sem er búsett í Reykjavík, skráður móttakandi sendingarinnar.

Segir í ákæru að Guðmundur og Erna hafi falsað í sameiningu skriflega yfirlýsingu þess efnis að konan gæfi Ernu fullt og ótakmarkað umboð til að taka við öllum hennar bréf- og póstsendingum. Guðmundur og Erna fóru saman í póstafgreiðsluna þar sem Erna framvísaði hinu falsaða umboði og móttók sendinguna og afhenti hana Guðmundi í strætisvagni sem var á heimleið. Lögreglan handtók þau svo skömmu síðar og var Erna þá með umslagið í fórum sínum.

Erna var enn fremur ákærð fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum, á heimili sínu, 0,11 g af amfetamíni, 0,28 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, 4 stykki afAbstral, 1 stykki afRivotril og 90 stykki afGabapenstad. Fíkniefnin og lyfin fundust við leit lögreglu 7. maí 2021.

Umslagið var verið póstlagt 29. mars 2021 í Þýskalandi og …
Umslagið var verið póstlagt 29. mars 2021 í Þýskalandi og fór sendingin af stað frá Hamborg 7. apríl það ár og var komin til Íslands 3. maí. Ljósmynd/Colourbox

Söluverðmæti efnanna 17-34 milljónir

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Guðmundur og Erna byggi í aðalatriðum á því að þeim hafi verið alls ókunnugt um upphaflegt innihald póstsendingarinnar, þau hafi verið í góðri trú um að þau væru að sækja og móttaka póstsendingu með lögmætu innihaldi á nafni konunnar og að þau hafi í tengslum við það komið fram fyrir hennar hönd eða með hennar samþykki.

Ákæruvaldið byggir á hinu gagnstæða og leggur til grundvallar að öll rök standi til þess að ákærðu hafi í umrætt skipti ætlað að sækja og taka á móti miklu magni fíkniefna. Vísar ákæruvaldið í aðalatriðum til þess að framburður og skýringar ákærðu hafi verið ótrúverðugar og ekki í nægjanlegu samræmi við gögn málsins.

Í dómnum kemur fram að áætlað söluverðmæti efnanna hér á landi hefði getað verið á bilinu 17-34 milljónir kr.

Mikið í húfi

„Að því virtu er ljóst að um er að ræða veruleg verðmæti í almennu tilliti og því mikið í húfi fyrir hlutaðeigendur sem standa fyrir innflutningnum. Að þessu virtu er afar hæpið að tilviljun hafi ráðið því að umrædd póstsending var send til landsins og merkt vitninu A, sem skráðum viðtakanda, eins og gerðist í þessu máli. Sá eða þeir sem stóðu að baki innflutningnum hljóta að hafa haft ástæðu fyrir því að hún var skráð með fyrrgreindum hætti og að það hafi beinlínis verið með ráðum gert. Hlýtur það að hafa verið gert til þess að leyna brotinu, villa um fyrir yfirvöldum og gera raunverulegum móttakanda mögulegt að nálgast efnin hér á landi,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Vikið er að tengslum Guðmundar og Ernu við konuna og segir í dómi héraðsdóms að allt bendi til þess að nafn hennar hafi verið misnotað í fyrrgreindum tilgangi svo Guðmundur og Erna væri unnt að sækja og móttaka sendinguna og þar með komast yfir efnin og jafnframt að ákærðu hafi bæði vitað af og haft ásetning til þess. 

Þá kom fram að Guðmundur og Erna hefðu bæði verið í fíkniefna- og/eða fíknilyfjaneyslu á umræddum tíma auk þess að hafa verið í nánu sambandi. 

Með miklum ólíkindablæ

„Verður að teljast með miklum ólíkindum að ákærða Erna, sem fíkniefnaneytandi og fíkniefnasali, og ákærði Guðmundur, sem var kærasti hennar á sama tíma og svipað var ástatt um, hafi á sama tíma óvart eða óviljandi lent saman í því að sækja og taka á móti póstsendingu sem kom til landsins og hafði upphaflega innihaldið talsvert magn af metamfetamíni, og jafnframt að téð sending væri á nafni [...] ákærða Guðmundar,“ segir í dómnum. 

Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að framburðir þeirra hafi í öllum aðalatriðum verið afar ótrúverðugir og með miklum ólíkindablæ. 

Guðmundur og Erna hafa bæði komið við sögu lögreglu áður. Sakaferill Guðmundar nær til ársins 2012 en Ernu til ársins 2011. 

Talsvert magn hættulegra fíkniefna

„Við ákvörðun refsingar ákærðu verður litið til þess að brot samkvæmt a-lið ákæru fól í sér röskun á mikilvægum almannahagsmunum. Var um að ræða talsvert magn hættulegra fíkniefna með miklum styrkleika, sbr. það sem áður greinir um skaðsemi, mæligildi og áætlaðan skammtafjölda. Var því veruleg hætta á því að efnin færu í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Allt framangreint horfir til refsiþyngingar. Að auki horfir til refsiþyngingar að brotið var framið í félagi. Einnig horfir sakaferill hinna ákærðu heilt á litið til refsiþyngingar fyrir þau hvort um sig,“ segir í niðurstöðu dómsins sem gerði enn fremur öllu fíkniefnin, sem lögreglan lagði hald á, upptæk. 

Guðmundi var svo gert að greiða 1,6 milljónir kr. í málsvarnalaun og Erna 1,2 milljónir í málsvarnalaun. 

mbl.is
Loka