Gul viðvörun tók gildi klukkan sex í morgun fyrir Breiðafjörð og Vestfirði. Veðurstofa Íslands gefur út viðvörunina vegna vinds.
Spáð er norðaustanátt 13-20 m/s með mjög hvössum vindhviðum, einkum við fjöll, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Varað er við því að aka um á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind og er fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.
Er hún í gildi út daginn í dag, þriðjudag.
Rigning er með köflum víða um land og hiti 5 til 12 stig, hlýjast á Suðurlandi. Dregur úr vindi á morgun og úrkomuminna.