Húsnæðissparnaðurinn fór í eggheimtuaðgerð

Árlega greinast um 100 íslenskar konur á barneignaraldri með krabbamein. Guðrún Blöndal málari var aðeins 21 árs þegar hún greindist með eitlakrabbamein fyrir tveimur árum.

Þegar greiningin lá fyrir var Guðrúnu boðið að fara í eggheimtuaðgerð þar sem auknar líkur geta orðið á ófrjósemi í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Guðrún þurfti sjálf að standa allan straum af kostnaðinum af slíkri aðgerð með húsnæðissparnaði sínum.

Guðrún segir sögu sína í Dagmálum dagsins.

Fékk hálftíma til að ákveða sig

Tilhugsunin um eggheimtuaðgerð reyndist Guðrúnu yfirþyrmandi þegar hún hafði á sama augnabliki fengið þær fregnir að hún væri að glíma við lífshættulegan sjúkdóm.

„Læknirinn spurði hvort ég hefði áhuga á að fara í eggheimtu í sama samtali og þegar ég fékk greiningu á að ég væri með krabbamein. Ég sagðist vilja hugsa málið. Svo hringdi hann í mig hálftíma seinna og spurði hvort ég væri búin að ákveða mig,“ segir Guðrún sem segist á þeim tíma hvorki hafa haft nægilegan skilning á eggheimtuferlinu og hvað þá hvað það átti eftir að þýða fyrir hana að vera þetta ung að fást við krabbamein.

Í fyrstu tók hún ákvörðun um að fara ekki í eggheimtuaðgerð. Þótti henni það  kostnaðarsamt og svo hafði hún heyrt að Hodgkins-eitilfrumuæxli, sú krabbameinstegund sem hún hafði greinst með, hefði ekki jafn mikil áhrif á frjósemi og mörg önnur mein.

„Þetta var alveg ógeðslega vont“

Síðar, þegar í ljós kom að krabbameinið væri enn til staðar hjá Guðrúnu og að hún þyrfti að gangast undir stofnfrumumeðferð, ákvað hún að endurskoða ákvörðun sína með eggheimtuna og lét til skarar skríða.

„Þetta var alveg ógeðslega vont,“ lýsir Guðrún eggheimtuaðgerðinni. „Ég held að deyfingin hafi bara ekki virkað eða eitthvað.“

Hún segir eggheimtuna hafa verið sársaukafulla aðgerð sem erfitt hafi verið að ganga í gegnum ofan á allt annað. 

„Ég var farin að skjálfa og var hágrátandi. Þetta var bara mjög slæm og erfið upplifun.“

Óttaðist að frjósemin væri á undanhaldi

Guðrún segist hafa óttast það mjög að eggheimtuaðgerðin myndi ekki takast.

„Ég var svo hrædd um að ég væri búin að skemma allt því ég fór ekki strax í byrjun, ekki þegar ég var búin með eina meðferð. En það náðust níu egg og ég veit eiginlega ekki ennþá almennilega hvað það þýðir,“ segir hún og kveðst ekki vilja ganga í gegnum eggheimtu aftur.

„Eftir þessa aðgerð þá hugsaði ég bara: „Ef að hún virkaði ekki, þá ætla ég ekki að gera þetta aftur.““

Ætti að vera hluti af greiðsluþátttökukerfinu

Nýlega stóð góðgerðarfélagið Lífskraftur fyrir málþingi um ófrjósemi kvenna í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Markmiðið er að auka vitundarvakningu á málefninu og þrýsta á stjórnvöld að koma ófrjósemisaðgerðum í tengslum við krabbameinsmeðferðir inn í greiðsluþátttökukerfið.

Hildur Sverrisdóttir, nýkjörinn þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur látið málefnið sig varða og hyggst leggja fram frumvarp til Alþingis þess eðlis að ófrjósemisaðgerðir vegna krabbameins verði í framtíðinni niðurgreiddar af ríkinu.  

Smelltu hér til að horfa eða hlusta á þáttinn í heild sinni.

mbl.is