Uppruni frægra ummæla sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, vísaði til í frægri ræðu sinni á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar árið 2010 þegar hún talaði um kattasmölun er loksins kominn í ljós.
Í ræðu sinni sagði Jóhanna: „Það heldur engin ríkisstjórn það út til lengdar að búa við óvissan og ótraustan meirihluta í stórum og erfiðum málum. Á óvissu- og erfiðleikatímum er það lykilatriði að ríkisstjórn hafi traust og fast land undir fótum. Hoppandi meirihlutar á Alþingi duga skammt við aðstæður eins og okkar þjóð er í nú og of mikil orka og tími fer í að smala þeim saman og ná málum í gegn. Ein flokkssystir okkar orðaði þetta ágætlega þegar hún sagði að þetta væri „eins og að smala köttum“.“
Komu ummælin í kjölfar ósættis innan ríkisstjórnarinnar og tengdust meðal annars Ögmundi Jónassyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem sögð voru tilheyra „órólegu deildinni“ innan VG.
Voru ummælin um kattasmölunin strax tekin upp í fjölmiðlum og urðu strax fleyg, enda mikið notuð í umræðu og umræðuþáttum í kjölfarið og hafa reglulega poppað upp síðan þá. Meðal annars þótti rétt að efna til keppni á vegum Kattavinafélagsins og Kattaræktunarfélags Íslands í kattasmölun nokkrum dögum eftir ræðu Jóhönnu, en fljótlega varð þó ljóst að þar var á ferð aprílgabb Morgunblaðsins. Það hefur þó alltaf verið á huldu hver umrædd flokkssystir Jóhönnu var sem notaði þennan frasa fyrst.
Í hlaðvarpsþættinum Ræðum það..., sem almannatengillinn Andrés Jónsson stýrir, var loks upplýst um það hvaðan ummælin eiga uppruna sinn. Í þættinum voru þau mætt Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna í Kópavogi og Anna Sigrún Baldursdóttir, skrifstofustjóri og leiðtogi öldrunarmála hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Henti Andrés þessum fleygu ummælum fram í þættinum og bætti við hvort Anna Sigrún hefði ekki verið á bak við þau. „Ég skal játa,“ sagði Anna Sigrún í kjölfarið og rifjaði upp söguna á bak við þessi ummælin.
Sagðist Anna Sigrún hafa starfað aðeins áður inn á Landspítalanum og að þar hafi einn læknir „sem var alveg toppmaður“ sagt: „Að stjórna læknum er eins og að smala köttum“. Örfáum mánuðum síðar varð hún aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, þáverandi velferðarráðherra.
„Stuttu eftir það fer allt í hund og kött í allskonar málum og þá sagði ég þetta einhverntímann á fundi með Hrannari Arnarssyni, sem var þá aðstoðarmaður Jóhönnu, ég segi: „Þetta er eins og að smala köttum þetta samstarf.“ Næsta sem ég veit er að hún segir þetta í ræðu.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan.