Þingvallanefnd ákvað að nýta forkaupsrétt á húsi sem stendur á Valhallarstíg nyrðri númer 8. Nefndin tók afstöðu til forkaupsréttarins snemma í vor og fór málið í framhaldinu í gegnum tvö ráðuneyti, umhverfis-, orku- og lofslagsráðuneytið annars vegar og fjármála- og efnahagsráðuneytið hins vegar.
Um er að ræða sumarbústað og greiddi Þingvallanefnd 40 milljónir króna fyrir húsið. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort húsið verði nýtt í einhvers konar starfsemi eða verði mögulega rifið.
Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður og framkvæmdastjóri Þingvallanefndar, segir að til greina komi að vera með veitingasölu eða slíkan rekstur í húsinu.
„Húsið er mjög nálægt þinghelginni og við viljum skoða alla möguleika. Hægt væri að nýta húsið fyrir gesti þjóðgarðsins eða fjarlægja húsið,“ segir Einar en húsið stendur um 500 metra sunnan við staðinn þar sem gamla Valhöll stóð og með ágætt útsýni yfir Þingvallavatn.
Einar tekur fram að ekki standi til að búa til nýja Valhöll en Hótel Valhöll brann til kaldra kola sumarið 2009. „Þarna væri ef til vill hægt að vera með veitingastað eða snoturt kaffihús ef hægt væri að breyta húsinu til að vera með frekar einfalda aðstöðu. Húsið er eitt af elstu húsunum innan þjóðgarðsins og þegar eigendurnir vildu selja þá kom málið inn á borð Þingvallanefndar. Ég gæti ímyndað mér að það skýrist síðar í haust eða snemma í vetur hvað verður gert. Við munum ekki sjálf standa í rekstri í húsinu heldur yrðu þá rekstraraðilar valdir eftir útboðsleið eða eitthvað slíkt.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.