„Ætti að vera niðurgreitt að fullu“

Frækinn hópur kvenna sem kallar sig Snjódrífurnar stendur fyrir Lífskraftsátakinu Leggöngunni um þessar mundir. Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, ein Snjódrífanna, er gestur í Dagmálum.

Þar ræðir hún um fjáröflunarátakið Leggönguna sem að þessu sinni safnar fjármunum til stuðnings við konur sem greinast með krabbamein á barneignaraldri og þurfa að gangast undir eggheimtuaðgerð áður en krabbameinsmeðferð hefst.

Markmið Leggöngunnar er að auka vitundarvakningu á ófrjósemi í tengslum við krabbamein og létta á fjárhagsáhyggjum ungra krabbameinssjúkra kvenna.

„Þetta er mjög verðugt málefni. Í dag þurfa konur að greiða fyrir eggheimtu úr eigin vasa,“ segir Þórey sem mun dagana 7. og 8. október ganga í krafti kvenna upp Háölduna, sem er hæsti tindur Landmannalaugasvæðisins, til styrktar málefninu. 

„Sérstaklega þetta árið erum við að varpa ljósi á ófrjósemi sem getur fylgt þegar ungar konur fá krabbamein. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þær að fara í eggheimtu og það þarf að huga að því að ef þig langar til að eignast börn að þá þarftu helst að fara í eggheimtu áður en þú ferð í krabbameinsmeðferð,“ segir Þórey og viðurkennir að hafa ekki haft vitneskju um það áður en málefnið kom til tals hjá hópnum.

Verðugur málstaður

Þórey segir algengt að mánaðarlegar blæðingar hætti hjá konum sem ganga í gegnum krabbameinsmeðferð og að margar þeirra eigi í hættu á að verða ófrjóar í kjölfarið eða eigi í erfiðleikum með að verða barnshafandi eftir veikindi og meðferð. 

„Við viljum gefa ungum konum tækifæri á að fara í eggheimtu og þess vegna erum við í fjáröflun fyrir þennan málstað núna. Vonandi verður þetta til þess að eggheimta í tengslum við krabbameinsmeðferð verður að fullu niðurgreidd þannig að þetta sé bara hluti af krabbameinsmeðferðinni,“ segir hún og kveður hópinn hafa fundið fyrir miklum meðbyr undanfarið. 

„Það er ekki hægt að vera mótfallinn þessum málstað. Það er bara ekki hægt,“ segir hún.

Snjódrífurnar er hópur sem varð til fyrir tilstilli Guðrúnar Sigríðar Ágústsdóttur, eða Sirrýar eins og hún er alltaf kölluð. Síðustu þrjú ár hafa Snjódrífurnar staðið fyrir styrktargöngum til stuðnings við aðbúnað fyrir krabbameinssjúka en í ár verður breyting þar á þar sem fjárstuðningurinn rennur allur til þessa málefnis; ófrjósemi í tengslum við krabbamein.

Smelltu hér til að hlusta eða horfa á þáttinn í heild sinni.    

mbl.is
Loka