Betri umferð með hjálp gervigreindar

Þung umferð á Sæbraut síðdegis í lok ágúst.
Þung umferð á Sæbraut síðdegis í lok ágúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram tillögu um að gerðar verði úrbætur á stýringu umferðarljósa í Reykjavík til að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun.

Hafður verði til hliðsjónar árangur þeirra borga á Norðurlöndum og fleiri nágrannaríkjum sem hafa náð góðum árangri í þessum efnum.

Kjartan vill að tölvutækni verði nýtt betur en nú er gert, m.a. með aukinni notkun snjalltækni. Gervigreind verði notuð til að besta stýringuna út frá gögnum sem aflað verði með skynjurum á umferðarljósum.

Kjartan Magnússon.
Kjartan Magnússon. mbl.is/Sigurður Bogi

„Varlega áætlað gæti slík snjallstýring umferðarljósa bætt umferðarflæði í Reykjavík um 15% og minnkað tafir strætisvagna um 20%,” segir Kjartan.

„Snjallvæðing umferðarljósa og bestun borgarumferðar með hjálp gervigreindar hefur nú þegar sannað sig erlendis í því skyni að stytta tafatíma og auka öryggi í umferðinni. Fjárfesting í sambærilegri snjallvæðingu hér þyrfti ekki að kosta mikið í samhengi hlutanna, e.t.v. einn til tvo milljarða króna, sem hægt væri að skipta á nokkur ár. Slík fjárfesting væri hins vegar fljót að skila sér margfaldlega með greiðari umferð, fækkun slysa og minni mengun,” bætir hann við.

Tillagan var tekin til meðferðar á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar og var samþykkt að vísa henni til umsagnar í borgarkerfinu.

mbl.is