Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallaði á fundi sínum í morgun um beiðni um skipun rannsóknarnefndar vegna snjóflóðsins í Súðavík þann 16. janúar 1995.
„Við fengum til okkar gesti frá forsætisráðuneytinu og lögmann aðstandenda sem sendu forsætisráðherra erindi í vor. Það erindi var svo sent með bréfi til okkar í sumar. Við erum að hefja umfjöllun nefndarinnar um þetta erindi og þá hvort og hvernig tillaga um stofnun rannsóknarnefndar myndi líta út,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar Alþingis, við mbl.is.
Fjórtán manns fórust í snjóflóðinu, þar af átta börn, en snjóflóðið er eitt mannskæðasta snjóflóðið í Íslandssögunni.
Spurð hvenær hún reiknar með að komist niðurstaða komist í málið segir Þórunn:
„Það er ekki gott að segja á þessari stundu. Við eigum eftir að kalla til fleiri gesti. Verkefni okkar er komast að niðurstöðu um það hvort eigi að leggja til að koma á rannsóknarnefnd og þá um afmörkun efnisins. Það mun fara einhver tími í það hvernig við gerum það. Auðvitað viljum við reyna þetta eins hratt og okkur er unnt en ég á von á þetta taki einhvern tíma. Við skuldum þeim sem fóru með erindið til forsætisráðherra það að vanda okkur og við ætlum að gera það.“