Mikilvægt að „læra af mistökum þeirra og reynslu“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundi um lífsgæðakjarna framtíðarinnar: Hvernig …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á kynningarfundi um lífsgæðakjarna framtíðarinnar: Hvernig vill eldra fólk búa? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lífsgæðakjarnar byggðir af fyrirmynd og reynslu annarra þjóða gætu litið dagsins ljós á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Borgarstjóri segir mikilvægt að taka mið af reynslu annarra þjóða, áður en lagt er af stað með verkefnið, til að koma í veg fyrir að sömu mistök verði gerð aftur. Íbúðir í kjörnunum verða blanda af eigna- og leiguíbúðum og íbúðum með búseturétti. Gert er ráð fyrir að úthluta lóðum undir 1.100 íbúðir fyrir eldri borgara á næsta áratug.

Hugmyndafræði og fyrirmyndir að lífsgæðakjörnum fyrir eldri borgara voru til umfjöllunar á kynningarfundi um uppbyggingu húsnæðis fyrir eldra fólk, sem fram fór í ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Á fundinum voru þrír erlendir gestafyrirlesarar sem hafa góða innsýn í borgarskipulag og húsnæðisuppbyggingu, meðal annars fyrir eldra fólk, en þau sögðu frá sinni reynslu af fyrirkomulagi uppbyggingar og rekstur húsnæðis.

Hugmyndin á bak við lífsgæðakjara er að það sé bæði húnsæði og þjónustu þar sem fólki gefst kostur á að auka lífsgæði sín og njóta þess að vera til. Lögð er áhersla á samstarf þeirra sem þangað sækja með því að taka mið af hugmyndum þeirra og þörfum. Þannig getur í slíkum kjarna meðal annars verið samkomustaður, gróðurhús og heilbrigðisþjónusta.

Fjöldi manns lagði leið sína á fundinn.
Fjöldi manns lagði leið sína á fundinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist fyrst og fremst ánægður með að umræðan væri að eiga sér stað núna, en ekki tíu árum eftir að búið væri að gera sömu mistök og gerð hafa verið annars staðar.

„Það er svo gott að fá þessa alþjóðlegu raddir frá löndum sem hafa verið að gera þetta í hundraði ára og læra af mistökum þeirra og reynslu.“

Lóðir fyrir 1.100 íbúðir fyrir eldri borgara á 10 árum

Í upphafi fundarins sagði Dagur frá því að á næstu tíu árum geri borgin ráð fyrir að úthluta lóðum undir 1.100 íbúðir fyrir eldri borgara. Aðspurður segir hann ráðgert að þær íbúðir verði blanda af eignar- og leiguíbúðum, en líka íbúðum með búseturétti sem hann segir vera að koma sterkur inn.

Búseturétturinn er þá þannig að fólk tryggir sér sína íbúð og borgar í raun fyrir sinn búseturétt, en þá eru einstaklingar öruggir með föstum greiðslum og getur losað peninga ef það er að koma úr eigin eign, segir Dagur.

„Við þurfum að finna réttu blönduna í þessu og réttu staðsetninguna. Það skiptir rosalega miklu máli til að koma í veg fyrir að það verði engin blöndun eldri og yngri íbúa og til að tryggja að þetta verði allt í eðlilegu hlutfalli, fléttist inn í viðkomandi hverfi og viðkomandi þjónustu hverfi.“

Þetta segir Dagur mikilvægt til að tryggja að einstaklingar vilji búa í húsnæðinu, enda reynslan sýnt - til að mynda í Kanada - að fólk vill síður búa eitt og út af fyrir sig. Það vill heldur vera í borgar- og mannlífinu, í nálægð við veitingastaði og allskonar þjónustu, segir hann.

Mikilvægt að blanda eldri og yngri kynslóðinni saman

Meðal gestafyrirlesara á fundinum var Maria Vassilakou, fyrrverandi varaborgarstjóri Vínarborgar og forstjóri Vienna Solutions. Hún talaði um mikilvægi þess að hafa blöndun eldri og yngri kynslóða til að húsnæðið gæti haldið áfram að þróast og myndi ekki staðna, enda þarfir milli kynslóða mismunandi.

Eruð þið opin fyrir því að þessir kjarnar verði ekki einungis fyrir eldra fólk, heldur einnig fyrir þá sem yngri eru og jafnvel með fjölskyldur? 

„Ég held að við eigum að hlusta á þessar raddir og þessar ábendingar. Mér fannst til dæmis frábær ábending að eitt af því sem að eldri borgarar í Kanada kölluðu eftir voru leikvellir fyrir utan húsnæðið. Bæði til að heyra hlátur frá krökkum, en líka til að hafa skemmtilegan stað til að fara á þegar barnabörnin koma í heimsókn. Þannig að þeim finnist gaman að koma til afa og ömmu.“

Dagur talar jafnframt fyrir því að í lífsgæðakjörnunum verði sameiginleg eldhús og veislusalir þar sem fólk getur komið saman í stærri hópum, bæði með vinum og fjölskyldu.

Hvernig vill eldra fólk búa?
Hvernig vill eldra fólk búa? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tímamót varðandi öldrun þjóðarinnar

Dagur segir Ísland á ákveðnum tímamótum bæði varðandi öldrun þjóðarinnar, en einnig hvað það er sem við viljum fá út úr lífinu, hvort sem það er þegar við erum hætt að vinna eða farin að vinna minna. Bæði varðandi ferðalög, búsetu og að hafa jafnvel aðgang að íbúð annars staðar, en þar sem aðal heimili einstaklinga er.

„Þetta er allt eitthvað sem við þurfum að taka inn í umræðuna og tala við fólk. Heyra hvernig þarfir þeirra eru og hvaða viðhorf það hefur, því viðhorfin eru að einhverju leiti að breytast.

Rauður þráður að íbúðirnar verði á viðráðanlegu verði

„Svo var einn annar rauður þráður, sem var að þetta yrði á viðráðanlegu verði,“ segir Dagur og bætir við að þar þurfi stjórnvöld að koma inn. Með áherslu á þá sem hafa minni tekjur en einnig með tilliti til vaxta og fjármagnskostnaðar, bæði á byggingartíma og almennt í samfélaginu, segir Dagur, sem telur það skipta gríðarlegu máli til þess að hér verði til íbúðir á viðráðanlegu verði.

„Þar tryggja stjórnvöld í Austurríki greinilega aðgang að hagstæðum vöxtum til að tryggja heilbrigðan húsnæðismarkað. Þetta leitar á hugann þegar staðan er eins og hún er núna,“ segir hann og vitnar kynningu Maríu sem fjallaði um kostnað við kaup og leigu í álíka húsnæðiskjörnum í Austurríki.

Uppbyggingu í þágu eldra fólks

Á liðnu vori auglýsti Reykjavíkurborg eftir samstarfsaðilum og hugmyndum tengdum lífsgæðakjörnum. Í kjölfarið komu viðbrögð frá nokkrum uppbyggingaraðilum sem vilja byggja upp í anda hugmynda um lífsgæðakjarna á sínum lóðum. Um er að ræða Reiti, Köllunarklett, Þorpið vistfélag, Klasa og Íþöku, en þessi fyrirtæki sögðu frá sínum hugmyndum á fundinum.

Aðspurður segir Dagur áform um að ganga til samninga við þessi fyrirtæki um að þróa þær lóðir sem þau eru með.

„Við munum leggja fram tillögur um það í borgarráði á morgun. En en við erum líka að horfa til okkar hverfaskipulags. Þar sem við erum að fara í gegnum skipulag eldri hverfa og hvernig við getum gert hverfin þar aldursvæn. Svo er borgin sjálf með nokkur svæði sem við viljum gjarnan bjóða til samstarfs um uppbyggingu í þágu eldra fólks. Gjarnan í samvinnu við óhagnaðardrifin félög sem eru þá að bjóða hagstæða leigu, eða búseturétt, til að þetta sé á viðráðanlegu verði,“ segir Dagur og bætir við:

„Við viljum að öll hverfin okkar séu góð til að eldast í, enda vill fólk ekki endilega flytja úr sínu hverfi. Við þurfum líka að hugsa um það hvernig við getum verið aldursvæn borg.“

mbl.is
Loka