Reglur hafa verið skerptar á leikskólanum Mánagarði eftir að það óheppilega atvik kom upp í gær að frændi sótti rangt barn á leikskólanum. Heiður Anna Helgadóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta (FS), sem rekur leikskólann, segir FS meðvitað um atvikið.
Vísir greindi fyrst frá og birti skjáskot af tölvupósti sem leikskólastjórinn Soffía E. Bragadóttir sendi á foreldra í dag þar sem reglurnar voru ítrekaðar.
Fljótt uppgötvaðist að frændinn hefði tekið rangt barn. Skilaði hann því aftur og sótti rétt barn.
Heiður Anna segir það vera samkvæmt verkferlum að skerpa á reglum þegar börn eru sótt á leikskólann. Sem betur fer hafi engum orðið meint af þegar atvikið varð í gær.
FS rekur tvo leikskóla, Mánagarð og Sólgarð.
Í pósti Soffíu kemur fram að svona megi ekki gerast og að foreldrar og starfsmenn þurfi að taka höndum saman.
Hér eftir þurfi þau sem sækja barn á leikskólann að koma inn í garðinn og láta vita þegar barn er sótt. Allt of oft gerist að foreldrar komið að hliðinu og sæki barnið þar.
Þá þurfi sérstaklega að láta vita ef einhver sem hefur sjaldan eða aldrei sótt barnið sæki svo hægt sé að leiðbeina um að rétt barn sé sótt.