Í bókinni Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir, rekur Rósa Magnúsdóttir, lífshlaup Kristins E. Andréssonar og Þóru Vigfúsdóttur konu hans. Hún segir að Stalín lifi góði lífi austur í Rússlandi.
„Eiginlega eitt það skrýtnasta við Rússland nútímans er þessi upphafning á Stalín eftir að Sovétmenn settu hann í gröfina, hann er ekki lengur í grafhýsi eins og Lenín,“ segir Rósa í viðtali í Dagmálum, „en að einhverju leyti tengist það því eins og þegar fólk eins og Kristinn og Þóra eru að dýrka Stalín á árum síðari heimsstyrjaldarinnar og þessi dýrkun á Stalín í Rússlandi nútímans tengist því bæði að það er búið að kæfa niður og eyðileggja söguvitund þessarar þjóðar, og auðvitað má ekki gagnrýna neitt, en líka þessari upphafningu á síðari heimsstyrjöldinni, föðurlandsstríðinu mikla, sem tengist náttúrlega þessum átökum sem eru í Úkraínu í dag, að þarf að halda upp einhverjum móral í landinu og þá hugsa menn til þessa síðasta stórfenglega stríðs sem föðurlandsstríðsins mikla.“
„Stríðið í Afganistan er auðvitað ekki þess eðlis að hægt sé að taka það neitt fram þannig að föðurlandsstríðinu mikla er alltaf haldið á lofti og Pútín hefur auðvitað gert mikið úr því að búa til eitthvert narratíf í kringum það sem á að sýna fram á stórveldið, það að Rússland eigi skilið aðdáun umheimsins.
Árangur Sovétmanna í stríðinu er auðvitað einstakur, þetta var svakalegt stríð og í því stórefldist ímyndin af Stalín sem landsföður, sem frænda og föðurímynd allra barna í Sovétríkjunum og Sovétmanna allra yfirleitt. Svo kom gagnrýnin og menn fóru að horfa á hluti eins og sýndarréttarhöldin sem fólk eins og Kristinn og Þóra gat aldrei sætt sig við - það væru ekki öll kurl komin til grafar hvað þetta varðar og það er kannski orðræða sem vð erum að sjá í Rússlandi í dag: Hann hlýtur að hafa haft ástæðu fyrir því að gera það sem hann gerði.“