Ef fram heldur sem horfir þá verða íbúar landsins orðnir fleiri en 400 þúsund í lok árs. Aldrei hefur íbúum hér á landi fjölgað meira en á síðasta ári. Nú stefnir í að fjölgunin verði enn meiri í ár.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem gefin var út í morgun.
Segir þar að þessi þróun muni auka þörfina fyrir nýjar íbúðir.
„Í dag eru 70.540 erlendir ríkisborgarar á Íslandi eða um 17,9% af heildarmannfjölda. Samkvæmt staðgreiðslugögnum frá Skattinum hefur hlutfall starfandi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði fjórfaldast frá árinu 2003, úr 5,1% af öllum starfandi í 20,6% árið 2022,“ segir í skýrslunni.
Bent er á að í aldurshópnum 26-36 ára séu erlendir ríkisborgarar um og yfir 30% af heildarmannfjölda þess aldursbils.
Á síðasta ári komu tæplega 3.000 nýbyggðar íbúðir inn á markað, á sama tíma og íbúum fjölgaði um 11.510.
Tekið er fram að fjölskyldustærð á Íslandi fyrir síðasta áratug nemi 2,53 íbúum á hverja íbúð að meðaltali.
„Miðað við þetta meðaltal hefðu rúmlega 4.500 nýjar íbúðir þurft að koma inn á markað í fyrra til að mæta fjölgun mannfjöldans.“
Samsetning mannfjöldans er þó sögð hafa mikil áhrif þegar meta eigi húsnæðisþörf.
„Erlendir ríkisborgarar sem hingað flytja eru líklegri til að flytja frá landinu en aðrir og einnig má búast við að þörf þeirra fyrir húsnæði sé ólík öðrum.
Vegna þess að það tekur þá tíma að festa hér rætur gætu þeir frekar viljað leiguhúsnæði en húsnæðis til eignar. Þá eru þeir hugsanlega einnig líklegri til að vilja deila íbúð með öðrum.“