Synjun um skólavist lögbrot

Kópavogsbær taldist hafa brotið gegn lögboðinni eftirlitsskyldu sinni með Waldorfskólanum …
Kópavogsbær taldist hafa brotið gegn lögboðinni eftirlitsskyldu sinni með Waldorfskólanum er þremur börnum var synjað þar um skólavist á þeim forsendum að traust gæti ekki ríkt milli móður barnanna og skólans. Ljósmynd/Aðsend

Waldorfskólinn í Lækjarbotnum gerðist brotlegur við lög þegar skólinn synjaði þremur börnum um skólavist í fyrravetur á þeirri forsendu að traust ríkti ekki milli móður barnanna og Waldorfskólans sem leiða myndi til þess að farsælt samstarf móðurinnar og umsjónarkennara gæti ekki þrifist.

Kópavogsbær er einnig talinn hafa gerst brotlegur við lög með því að hafa ekki uppfyllt eftirlitsskyldu sína gagnvart skólanum.

Þetta kemur fram í úrskurði mennta- og barnamálaráðuneytisins sem kveðinn var upp 24. mars og birtur í gær.

Voru málsatvik þau að móðirin sótti um skólavist fyrir börn sín þrjú en hún hafði áður starfað í skóla sem rekinn er í nánu samstarfi við Waldorfskólann en látið þar af störfum. Synjuðu stjórnendur Waldorfskólans börnunum um skólavist með framangreindum rökum en börnunum hafði áður verið synjað veturinn á undan.

Kópavogur taldi sig skorta boðvald

Við fyrri synjun var byggt á „atvikaskráningu og úrvinnslu [...]. Þá byggir ákvörðun skólans á þeim sjónarmiðum að koma kæranda í skólastarfið myndi hafa áhrif á innra starf leikskólans og grunnskólans,“ eins og segir í úrskurði ráðuneytisins.

Leitaði móðirin til fræðslusviðs Kópavogsbæjar í samræmi við það sem skólastjórnendur ráðlögðu henni væri hún ósátt við niðurstöðuna. Í svari bæjarins við erindi hennar kom fram að Waldorfskólinn væri einkarekinn grunnskóli og hefði sveitarfélagið því ekkert boðvald yfir honum. Kærði móðirin þá niðurstöðu til ráðuneytisins.

Vísar ráðuneytið í ákvæði laga um grunnskóla þar sem kveðið er á um að sveitarfélag þar sem skóli starfar skuli gera þjónustusamning um rekstur skólans við rekstraraðila. Í sömu lögum er mælt fyrir um að skólastjórar sjálfstætt rekinna grunnskóla annist innritun nemenda. Vísar ráðuneytið því næst í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum þar sem segir að skóli hafi sjálfur ákveðið val um við hvaða forsendur hann miði við innritun.

Skilyrði innritunar

Tekur ráðuneytið því næst fram að hins vegar beri að tryggja að fullnægt sé almennum reglum grunnskólalaga og aðalnámskrár, svo sem um jafnrétti til náms og skóla án aðgreiningar. Segir svo:

„Af framangreindu leiðir að þótt innritun í sjálfstætt rekinn grunnskóla sé háð frjálsu vali foreldra, fyrir hönd barna sinna, marka lög um grunnskóla ákveðinn ramma utan um innritun nemenda í slíka skóla. Með gerð þjónustusamninga tekur sveitarfélag, þar sem skólinn starfar, ábyrgð á því að tryggja að innritun nemenda í sjálfstætt rekinn grunnskóla sé í samræmi við almennar reglur skv. 7. tölul. 43. gr. d. laga um grunnskóla.“

Er því næst vikið að innritunarreglum Waldorfskóla í Lækjarbotnum þar sem segi að innritun sé háð eftirfarandi skilyrðum: að laus pláss séu í bekkjarárgangi barns, að innritunarnefnd metur álag í bekk viðunandi fyrir velferð barnsins og að skólinn geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart þörfum barnsins, og mætt námslegum og félagslegum þörfum barnsins út frá aðstæðum og möguleikum í skólanum.

Ekki í samræmi við lög

Telur ráðuneytið að í samræmi við lög og þjónustusamning við skólann beri honum að taka ákvarðanir um innritun í samræmi við eigin innritunarreglur.

„Í hinni kærðu ákvörðun er hvorki vísað til þeirra skilyrða sem koma fram í innritunarreglum skólans né þeirra upplýsinga sem þar er mælt fyrir um að ákvörðun um innritun sé byggð á. Í ljósi skyldu skólans til að fara eftir eigin innritunarreglum er það niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytis að ákvörðun Waldorfskóla í Lækjarbotnum, dags. 27. maí 2022, um synjun á umsókn um skólavist þriggja nemenda hafi ekki verið í samræmi við lög,“ er niðurstaða ráðuneytisins.

Var hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Waldorfskólann að taka umsóknir kæranda um skólavist barnanna til meðferðar að nýju.

mbl.is
Loka