Tvær lægðir við landið

Regnsvæði lægðanna nálgist bæði úr suðri og norðri og er …
Regnsvæði lægðanna nálgist bæði úr suðri og norðri og er því rigning víða í morgunsárið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvær lægðir eru nú í námunda við Ísland. Ein þeirra er stödd suðvestur af Reykjanesi og önnur austur af Langanesi, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Þar segir að regnsvæði lægðanna nálgist því bæði úr suðri og norðri og er því rigning víða í morgunsárið.

Lægðirnar munu þó fjarlægjast landið í dag og dregur úr vindi og úrkomu. Útlit er fyrir að vindur á norðvestanverðu landinu hafi minnkað niður í 10-15 m/s um hádegi í dag.

Áfram má búast við skúrum eða dálítilli rigningu í flestum landshlutum. Hiti verður á bilinu 5 til 13 stig, hlýjast suðvestan til á landinu.

Ein lægð á morgun

Á morgun verður einungis ein lægð sem hefur áhrif á veður hér á landi, verður norðaustanátt 5-13 m/s.

„Dálítil væta norðan- og austanlands, en á Suður- og Vesturlandi ætti að rofa til þegar kemur fram á daginn og eitthvað að sjást til sólar. Hiti á morgun svipaður og í dag,“ segir að lokum í hugleiðingunum.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is