Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, segir að staða stofnana ríkisins sé mismunandi og að vinna sé komin á fullt að fara yfir stöðu þeirra.
Forstöðumenn ríkisstofnana fengu á dögunum kynningu á áformum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um fækkun ríkisstarfsmanna en þegar á næsta ári á að fækka stofnunum ríkisins og lækka launagreiðslur um fimm milljarða króna.
„Við hjá stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana höfum hist og farið yfir stöðuna. Við höfum sent á okkar félagsmenn beiðni um að fá athugasemdir og ábendingar frá þeim og í framhaldinu förum við yfir þær,“ segir Helga í samtali við mbl.is.
„Auðvitað vitum við að opinberi geirinn þarf að líta í sinn rann eins og allir aðrir. Það sem hefur komið á daginn er að þetta er þvert á línuna. Við vitum að það er mismunandi staða hjá stofnunum. Við ætlum að vanda til verka og vera með yfirvegun í þessu eins og öllu.
Þetta er vinna sem tekur sinn tíma. Það er líka verið að tala um sameiningar og svo var rætt um að bæði menntageirinn og heillbrigðisgeirinn yrðu látnir í friði en svo virðist ekki vera alla vegana hvað framhaldsskólana varðar. Við þurfum að kortleggja stöðuna og sú vinna er í gangi,“ segir Helga.