Aldrei átt almennilegan bíl

Þeir bræður Vignir (t.v.) og Ægir Gunnarssynir bak við afgreiðsluborð …
Þeir bræður Vignir (t.v.) og Ægir Gunnarssynir bak við afgreiðsluborð Verkfærahússins í Hafnarfirði þar sem ýmissa grasa kennir. Í sama húsi starfrækja þeir fæðubótarefnaverslunina Vaxtarvörur þar sem töflur og duft leysir stálið af hólmi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er mestmegnis að þjónusta bílaverkstæðin, ég er náttúrulega bifvélavirki sjálfur og er búinn að vera í þessu síðan ég byrjaði með fæðubótarefnabúðina Vaxtarvörur 2006,“ segir Ægir Gunnarsson frá Fellabæ, systurbæ Egilsstaða handan fljótsins.

Langt er þó liðið síðan Ægir flutti suður, nú er hann búsettur í Hellum á Vatnsleysuströnd, rekur Verkfærahúsið og Vaxtarvörur í Hafnarfirði, sem þó eru eitt og sama fyrirtækið, og er mikill áhugamaður um gömul verkfæri sem hann safnar af alúð.

„Þegar ég byrjaði með Vaxtarvörur byrjaði ég með verkstæði fyrir verkfæri sem ég var með bara á bak við og þegar ég var ekki frammi í búð að afgreiða var ég þar að gera við verkfæri,“ segir Ægir frá sem hóf ferilinn sem þjónustuaðili fyrir Würth og gerði í fyrstu við öll verkfæri sem það fyrirtæki seldi.

Ægir ásamt dætrunum Carmen Enju og Ísabellu Mist sem hann …
Ægir ásamt dætrunum Carmen Enju og Ísabellu Mist sem hann kveður mjög handlagnar. Þær kunni orðið á flest verkfæri í safninu, fikti sig áfram og séu auk þess liðtækar vel við saumaskap. Ljósmynd/Aðsend

Bræður bak við afgreiðsluborðið

„Svo bættist Verkfærasalan við og ég fór að aðstoða þá þó að þeir séu nú reyndar með verkstæði sjálfir,“ segir Ægir sem gerir við hvaða verkfæri sem er, óháð notkunarsviði og fékkst einnig við viðgerðir fyrir fjölda verktakafyrirtækja. Sá dagur kom að hann fór að panta inn verkfæri sjálfur þar sem sum verkfæri borgaði sig ekki að gera við.

„Einhvern veginn leiddist ég út í að panta inn meira og meira og nú er ég sjálfsagt með landsins mesta úrval af verkfærum sem tengjast bílaviðgerðum. Búðin er lítil og nett en stútfull af vörum og svo er ég með lager í næstu götu sem er alveg pakkaður líka,“ segir Ægir sem starfrækir Verkfærahúsið, eins og það heitir núna, með Vigni bróður sínum.

Ægir birti nýlega myndir af gömlum verkfærum á Facebook-síðu sinni og greindi frá því að þau hefði maður nokkur gefið honum sem geymt hefði gamla auglýsingu frá honum sem Ægir man ekki lengur hvar birtist, á Facebook eða Bland.is telur hann. Hver skyldi kveikjan að ástríðu hans fyrir gömlum verkfærum hafa verið?

Þau eru óneitanlega svipmikil, sum handverkfærin frá löngu horfnum tíma. …
Þau eru óneitanlega svipmikil, sum handverkfærin frá löngu horfnum tíma. Ægir segir að auðvelt sé að halda verkfærum við endalaust. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef alltaf verið með verkfæradellu. Ég ólst upp á verkstæði og var farinn að gera við vélar áður en ég fermdist, ég hef alltaf verið með verkfæri í höndunum en eftir að ég byrjaði með verkstæðið kviknaði þessi áhugi á gömlum verkfærum og að gera upp verkfæri,“ segir Ægir frá og játar að þessi áhugi hafi þó fyrst tekið hann heljargreipum þegar hann flutti til Hellna.

Á ekki sjónvarp

„Þá keypti ég algjörlega ónýtt einbýlishús, 120 fermetra, og byrjaði strax að rífa niður útveggi og er enn að endurbyggja það. Svo innréttaði ég herbergi í húsinu hjá mér til að föndra með verkfæri. Ég er ekki með sjónvarp svo eftir að föndurherbergið kom til gat maður bara sest þangað inn á kvöldin og gert upp eitthvert gamalt verkfæri í stað þess að eyða tímanum í að horfa á sjónvarpið,“ segir Ægir frá, maður sem augljóslega hefur fundið sína fjöl í lífinu eins og sagt er.

Blaðamaður spyr út í nýlega gjöf í safn þúsundþjalasmiðsins að austan, hvernig kom þetta til?

„Það hafði samband við mig maður sem hafði einhvern tímann séð frá mér auglýsingu þar sem ég var að auglýsa eftir gömlum verkfærum, hann tók skjáskot af henni, þetta var fyrir löngu síðan, afi hans átti þessi verkfæri og svo dó einhver í fjölskyldunni og einhver skipti voru í gangi og þá hafði hann samband við mig, hafði þá geymt auglýsinguna lengi,“ segir Ægir frá.

Feðgin bregða á leik við aftanskæru.
Feðgin bregða á leik við aftanskæru. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist hafa gaman af því að dunda sér við verkfærin þegar hann á lausa stund, sem virðist ekki vera oft þar sem auk fyrirtækjarekstrar er Ægir enn að byggja á Hellum. „Núna er ég að byggja 150 fermetra skemmu sem verður verkstæði og fönduraðstaða og svo er ég enn að byggja íbúðarhúsið en er eiginlega stopp í því þar sem húsið er fullt af verkfærum og byggingarefni sem ég þarf að koma út í skemmu, ég tek þetta svona í áföngum, hluta af húsinu í einu,“ segir Ægir sem virðist ekkert handverk víla fyrir sér enda hefur hann lagt vatn og rafmagn og gert allt.

„Má endalaust viðhalda þessu dóti“

Aðeins einu sinni segir hann iðnaðarmann hafa komið á heimilið sem var þegar hann þurfti aðstoð við að setja gler í gluggana og svo virðist sem handlagni hans sé ættgeng þar sem dætur hans, 12 og 15 ára, eru þegar orðnar iðnar við kolann að hans sögn. „Þær eru búnar að læra hér á öll verkfæri, fikta sig áfram og sauma líka mikið,“ segir Ægir af dætrunum.

Ægir Gunnarsson verður seint kallaður óheflaður.
Ægir Gunnarsson verður seint kallaður óheflaður. Ljósmynd/Aðsend

Sem fyrr segir ólst Ægir upp á verkstæði fyrir austan en 17 ára gamall flutti hann suður og hóf þá störf á Bifreiðaverkstæði Kópavogs, átti eitt sumar á Bifreiðaverkstæði Egils og Jóa og tók þá við tæpur áratugur hjá Brimborg þar til Ægir hætti 2006 og tók að selja fæðubótarefni í Vaxtarvörum þar sem Verkfærahúsið bættist svo við.

„Það má endalaust viðhalda þessu dóti,“ segir Ægir um verkfærin og þykir fólk almennt fullfljótt til að kaupa alltaf nýtt þegar eitthvað bilar. „Það spáir ekki einu sinni í að gera við hlutina, hendir þeim bara og kaupir nýtt, ég er alveg hinum megin á rófinu,“ heldur hann áfram og viðrar að lokin heimspeki hins naumhyggjulega verkfæraáhugamanns.

Fullkomlega eðlilegt stofustáss á Hellum á Vatnsleysuströnd.
Fullkomlega eðlilegt stofustáss á Hellum á Vatnsleysuströnd. Ljósmynd/Aðsend

Vill að allir fari út glaðir

„Ég hef til dæmis aldrei átt almennilegan bíl og mér er skítsama. Ég vil heldur kaupa meira af vörum í búðina til að vera með meira úrval og geta þjónustað fleiri,“ segir Ægir sannfærandi, „ég hef eiginlega bara áhuga á að hjálpa fólki og þjónusta það. Þegar einhver kemur í búðina, er með bilaðan bíl og þarf þetta og þetta og þetta þá vil ég geta hjálpað honum,“ segir verkfærakaupmaðurinn enn fremur.

Ægir leggur metnað sinn í að kenna viðskiptavinum sínum að gera við hluti, séu þeir ekki sömu þúsundþjalasmiðirnir og hann, slíkt kveður hann mjög algengt. „Ég vil að allir fari út frá mér glaðir og finnist þeir heppnir að hafa villst þarna inn. Þetta snýst svolítið um það frekar en einhverja peninga,“ segir verkfæragrúskarinn á Hellum að lokum.

Ægir er að reisa sér skemmu úti í garði hjá …
Ægir er að reisa sér skemmu úti í garði hjá sér sem verður vettvangur tómstunda hans er fram líður enda íbúðarhúsið svo fullt af verkfærum að þar má vart skipta um skoðun orðið. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: