Dugar ekki að nálgast rússneska vexti

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, gagnrýndi vaxtastigið á Íslandi á Alþingi í morgun og sagði þá sem verja óbreytt ástand þurfa að svara hvers vegna þeim þykir réttlætanlegt að heimilin taki á sig kostnaðinn sem fylgir krónunni.

„Eftir 14 stýrivaxtahækkanir í röð nálgumst við rússneska vexti en samt dugar það ekki til. Verðbólgan er aftur á uppleið. Tugþúsundir landsmanna finna fyrir þessum veruleika á matarkörfunni og húsnæðislánunum sínum,” sagði Þorbjörg Sigríður undir liðnum störf þingsins.

Tvær þjóðir á Íslandi

Hún bætti við að hérlendis búi tvær þjóðir, annars vegar sú sem lifi í krónuhagkerfinu og hins vegar sú sem geri upp í evru og dollara.

„Heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki tilheyra krónunni. Evran er fyrir stórfyrirtæki landsins. Það er auðvitað gott að stórfyrirtækin geti starfað í öruggara umhverfi og notið betri lánskjara. En þetta öryggi á að vera markmiðið fyrir þjóðina alla. Íslensk heimili eiga að geta notið sama öryggis og hluti atvinnulífs og íslenskir bændur eiga að njóta sömu lánskjara og íslenskur sjávarútvegur,” sagði hún.

Færeyingar í góðum málum

Jafnframt minntist hún á stöðu mála í Færeyjum þar sem danska krónan er tengd við evru. Sú sambúð sé góð.

„Þar er mikill hagvöxtur, sjávarútvegur undirstöðuatvinnugrein, ferðaþjónusta vaxandi. Íbúum hefur fjölgað umfram íbúðabyggingar. Allt eins og á Íslandi. En vaxtakjör í Færeyjum eru langtum betri en á Íslandi,” sagði Þorbjörg Sigríður.

mbl.is