„Frumvarpið er tvíþætt og varðar Evróputilskipun sem við megum vænta að þurfa að taka upp hér og hins vegar vegna skýrslu forsætisráðherra frá í fyrra sem snýr að þjóðaröryggi og birgðahaldi þegar kemur að mikilvægum nauðsynjum, m.a. lyfjum og lækningatækjum þegar vá ber að dyrum,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Hann mælti fyrir stjórnarfrumvarpi um breytingu á lyfjalögum og lögum um lækningatæki á Alþingi sl. miðvikudag.
Athygli vakti að tveir stjórnarþingmenn gagnrýndu frumvarpið, Diljá Mist Einarsdóttir og Óli Björn Kárason, bæði þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Þannig sagði Diljá Mist að með frumvarpinu ætti að ganga lengra við innleiðingu reglna ESB en „forsjárhyggjusambandið í Brussel“ og spurði hverju það sætti.
Um ástæðu þess að gengið sé lengra en tilskipunin mælir fyrir um segir Willum að verið sé að bregðast við skýrslu forsætisráðherra um neyðarbirgðir, erfitt sé að meta það fyrir fram á hvaða birgðir lyfja muni reyna þegar koma á í veg fyrir fyrirsjáanlegan skort. Sú skýrsla skýri einnig af hverju frumvarpið taki til 5.000 lyfja en ekki 17 tegunda eins og tilskipunin kveður á um.
Áætlaður kostnaður vegna áhrifa frumvarpsins, verði það að lögum, er um 500 milljónir króna, en Willum segir að kostnaðurinn liggi ekki fyrir fyrr en í kjölfar útboðs.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.