Rúmfatalagerinn allur

Skilti Rúmfatalagersins hefur nú verið tekið niður við verslanir fyrirtækisins.
Skilti Rúmfatalagersins hefur nú verið tekið niður við verslanir fyrirtækisins. Ljósmynd/Aðsend

Í gær var síðasti dagurinn þar sem verslunin Rúmfatalagerinn var starfandi undir því heiti, en frá og með deginum í dag hefur nafni verslunarinnar verið breytt í JYSK. Nafnabreytingin er hluti af umfangsmeiri breytingum í rekstri verslananna og vöruframboði.

„Með því að taka upp JYSKnafnið styrkjum við enn frekar þá vegferð sem við höfum verið í á síðustu árum. Fyrirtækið hefur breyst gríðarlega frá opnun árið 1987 og er í dag svo svo miklu, miklu meira en lager af rúmfötum. Það er deginum ljósara að nafnið endurspeglar ekki lengur það mikla og góða vöruúrval sem við bjóðum upp á og það liggja mikil tækifæri í að endurnýja vörumerkið okkar og byggja upp nýja ímynd af fyrirtækinu til framtíðar,“ er haft eftir Birni Inga Vilhjálmssyni, framkvæmdastjóra Rúmfatalagersins, í tilkynningu frá félaginu.

Segir hann að nú fáist vörur fyrir öll herbergi heimilisins í verslunum fyrirtækisins og nafnið styðji því áherslur þess á aðrar vörur en rúmföt.

Í stað Rúmfatalagersins verður nú notast við nafnið JYSK.
Í stað Rúmfatalagersins verður nú notast við nafnið JYSK. Ljósmynd/Aðsend

JYSK var stofnað árið 1979 sem lágvöruverðsverslun undir nafninu JYSK Sengetøjslager og Rúmfatalagerinn hóf starfsemi hér á landi árið 1987 í samstarfi við JYSK.  Allt frá stofnun hefur félagið verið í nánu samstarfi við JYSK í Danmörku sem hefur vaxið í að verða alþjóðleg verslanakeðja sem rekur yfir 3.200 verslanir í 50 löndum víðsvegar um heiminn. Á síðustu árum hefur JYSK látið af notkun nafnsins Sengetøjslager þar sem það er ekki lengur lýsandi fyrir starfsemina og er breytingin á Íslandi loka skrefið í því ferli.

„Með þessu erum við að leggja lokahönd á að byggja upp nýja ímynd og leggja grunninn að fyrirtækjamenningu sem við höfum trú á að muni reynast fyrirtækinu og viðskiptavinum þess farsæl til framtíðar,“ er haft eftir Þórarni Ólafssyni, forstjóra Lagersins Iceland, móðurfélags Rúmfatalagersins.

mbl.is