Þýðendur farnir að óttast þróunina

Deilt er um notkun gervigreindar við þýðingar á bókmenntaverkum
Deilt er um notkun gervigreindar við þýðingar á bókmenntaverkum mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við sjáum þetta einfaldlega sem leið fyrirtækisins til að lækka kostnað,“ segir Guðrún C. Emilsdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka (ÞOT).

Hljóðbókafyrirtækið Storytel hefur nýverið falast eftir liðsinni bókmenntaþýðanda við að leiðrétta svokallaðar vélþýðingar úr gervigreind. Þetta hefur verið til umræðu á meðal rithöfunda en viðkomandi þýðandi mun hafa afþakkað boðið.

Rithöfundar hafa lýst áhyggjum af því að til standi að hætta að láta fólk þýða bækur en treysta þess í stað að mestu á gervigreind.

Guðrún C. Emilsdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, ÞOT.
Guðrún C. Emilsdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, ÞOT. Ljósmynd/Þiðrik Emilsson

„Við erum auðvitað alls ekki sátt við þessa þróun mála. Þetta er margþætt og snertir höfundarrétt, greiðslur til þýðenda en auðvitað líka sjálft tungumálið okkar. Í okkar huga er mikil hætta á að með vélþýðingum verði þýðingar alltaf einsleitari og einsleitari. Þær koma aldrei í stað mennskra vitsmuna,“ segir Guðrún sem segir að við þýðingu frumtexta fylgi margt orðunum sem gervigreindin muni aldrei ná utan um.

Hún kveðst gera ráð fyrir því að útgáfur átti sig á því að mannleg hönd þurfi alltaf að vera til staðar við þýðingar.

„Og það er það sem verið er að seilast eftir núna. Það er verið að leita að fólki til að lesa yfir vélþýðingar og það auðvitað á lægri launum en ella, á lægri taxta en fæst fyrir þýðingar. Það er þó ekki minni vinna og hugsanlega meiri enda þarf að fara yfir þýdda textann og svo bera hann saman við frumtextann.“

Í Morgunblaðinu í dag er einnig rætt við Lísu Björk Óskarsdóttur, framkvæmdastjóra Storytel á Íslandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: