Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Fregnir bárust af því í morgun að verðbólgan sé aftur á uppleið en tólf mánaða verðbólga mælist nú 8%.
„Ég ætlaði að halda ræðu um allt annað en svo tók ég stuttan morgunlúr með dóttur minni og vaknaði upp við að það er átta prósent verðbólga í landinu,“ sagði Jóhann Páll.
„Verðbólgan er á uppleið annan mánuðinn í röð og Sjálfstæðisflokkurinn er í hláturkasti hér í hliðarherbergjum. Hvar eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar og hvar er er forystan? Fólkið í landinu er að spyrja. Hvar er ríkisstjórnin og hvar eru alvöru aðgerðir til að sporna gegn verðbólgu og verja fólkið í landinu gegn verðbólgu?
Það hafa það ekki allir eins gott og við hérna. Og hvenær kemur kjarapakkinn sem við í Samfylkingunni höfum kallað eftir aftur og aftur? Það er ekki nóg að segja aftur og aftur; „verðbólgan mun fara niður og það er hálfleikur.“
Það þarf að grípa til aðgerða og það þarf að sýna að okkur sé alvara í viðureigninni við verðbólguna. Nú er staðan þannig að verðbólguvæntingarnar eru á uppleið ef eitthvað er vegna þess að fólkið í landinu og þeir sem reka fyrirtæki hefur enga trú á þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í og hafa verið kynntar aftur og aftur þær sömu á glæruskýringum á blaðamannafundum að þær dugi til að sporna gegn verðbólgu, né þá heldur til að verja fólkið í landinu gagnvart henni.
Hvenær ætlar ríkisstjórnin að vakna og átta sig á því eins og ég gerði þegar ég vaknaði að það er átta prósent verðbólga í landinu og hún er á uppleið,“ sagði Jóhann Páll.