Á erfitt með að tala um þetta án þess að fara að gráta

Kristín Viðja að sinna öðrum mjaldrinum í Vestmannaeyjum.
Kristín Viðja að sinna öðrum mjaldrinum í Vestmannaeyjum. mbl.is

Kristín Viðja Harðardóttir háhyrningaþjálfari var ein þeirra sem komu að björgunaraðgerðum háhyrningsins sem hafði verið strand í Gilsfirði síðan á sunnudaginn. Tekin var sú ákvörðun í morgun að aflífa dýrið.

„Ég fór á staðinn eldsnemma í gærmorgun til að taka þátt í björgun háhyrningsins en ég hef reynslu af þessum dýrum, hef skilning á þeirra atferli og flutningum á þeim,“ segir Kristín Viðja í samtali við mbl.is.

Hún segir að háhyrningurinn hafi átt góðar lífslíkur og að hægt hefði verið að bjarga dýrinu ef ekki hefði komið til bilunar í búnaði.

„Það kom upp bilun í vélarbúnaði sem varð til þess að við misstum af tímarammanum. Háhyrningurinn var fyrir innan brúna í Gilsfirðinum. Aðalmálið var að reyna að koma honum undan brúnni og sleppa honum þar,“ segir Kristín.

„Við þurftum að gæta þess að sleppa honum ekki fyrir innan brúna þar sem er grunnt. Þar hefði hann svamlað og endað uppi á landi. Þetta háflóð sem við þurfum kemur ekki nógu oft og það hefði ekki verið mannúðlegt að bíða þangað til það gerðist aftur. Það var því tekin ákvörðun um að aflífa dýrið.“

Ekki tókst að bjarga lífi háhyrningsins í Gilsfirði.
Ekki tókst að bjarga lífi háhyrningsins í Gilsfirði. Ljósmynd/Landsbjörg

Virkaði þreyttur en vel meðvitaður um umhverfið

Spurð hvað hafi verið hennar hlutverk í björgunaraðgerðunum segir Kristín Viðja:

„Ég var í rauninni bara partur af björgunaraðgerðunum ásamt öðrum. Við vorum að reyna að halda honum á floti. Við vorum að koma undir hann seglum sem voru fest upp í stóra kúta sem voru blásnir upp. Hver og einn kútur heldur um einu tonni og við vorum með fjóra slíka til að halda honum uppi. Ég var að aðstoða við þessar aðgerðir,“ segir Kristín.

Var hann orðinn illa haldinn?

„Hann var svolítið búinn á því, enda líklega búinn að vera fastur þarna síðan á sunnudag eða mögulega laugardag. Hann virkaði mjög þreyttur en þrátt fyrir það var hann meðvitaður um umhverfið og fylgdist vel með. Hann var hress miðað við aðstæður og það var mjög erfitt að þetta skyldi enda eins og það gerði. Ég á erfitt með að tala um þetta án þess að fara að gráta,“ segir Kristín Viðja við mbl.is.

Skjáskot af Facebook-síðu ríkismiðilsins.
Skjáskot af Facebook-síðu ríkismiðilsins.

Kom algjör skítur á mig

Í færslu á Facebook kveðst Kristín ekki sátt við fréttaflutning RÚV en þar skrifar hún meðal annars:

„Geggjað að koma heim grátandi og niðurbrotin eftir misheppnaða björgun á heilbrigðu og spræku dýri, og þurfa svo að sjá þessi skítacomment um mig á fréttamiðli sem hefði betur mátt sleppa því að fjalla um mig. Takk RÚV-Fréttir, innilega fyrir að setja auðsjáanlegt grín í fréttina og láta okkur líta út eins og trúða. Ekkert „hvalajóga“ fór fram við þessar björgunaraðgerðir, og ég hreinlega stórefa að það sé nokkurs staðar iðkað.“

Þegar Kristín er spurð út í þessa gagnrýni hennar á RÚV segir hún:

Þóra, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, var í símaviðtali við RÚV. Hún var augljóslega að grínast en það sem RÚV gerði var að skrifa þetta upp eins og þetta hefði verið alvara. Þetta var í rauninni frétt um mig þótt ég hafi ekki sagt orð og það kom algjör skítur á mig í ummælum undir fréttinni. Það var ekki gaman að koma brotin heim eftir misheppnaða björgun og sjá þetta sem var algjört ógeð.“

Kristín Viðja hefur starfað sem hvalaþjálfari frá árinu 2018. Hún lærði fagið í Bandaríkjunum og starfaði á Spáni en hefur undanfarin ár búið og starfað í Vestmannaeyjum þar sem hún þjálfar mjaldrana Litlu-Grá og Litlu-Hvít.

mbl.is